Enski boltinn

Antony sakar United um virðingar­leysi og dóna­skap

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antony upplifði erfiða tíma hjá Manchester United.
Antony upplifði erfiða tíma hjá Manchester United. Getty/Carl Recine

Brasilíumaðurinn Antony er laus úr prísundinni hjá Manchester United eftir að félagið samþykkti að selja hann til spænska félagsins Real Betis í haust.

Antony hafði áður verið á láni hjá Betis og blómstraði þar eftir hörmungartíma sinn hjá United.

Antony gerði upp tímann hjá Manchester United í viðtali við ESPN í Brasilíu.

„Sjáðu til. Ég er ekki þessi náungi sem vill blanda mér í einhverjar deilur eða er að ásaka fólk um eitthvað. Ég mun því ekki nefna neinn á nafn,“ sagði Antony.

„Mér fannst samt vera ákveðið virðingarleysi í gangi og jafnvel dónaskapur líka. Það bauð mér enginn góðan daginn eða góða kvöldið,“ sagði Antony.

„Ekki einu sinni það. Þetta er samt bara hluti af fortíðinni og ég ætla að gera mikið mál úr þessu. Núna er ég hér hjá Betis. Hér bý ég í dag og það er það mikilvægasta fyrir mig,“ sagði Antony.

Þegar hann var spurður af hverju hlutirnir gengu ekki upp hjá United.

„Ég er maður sem sætti mig við mína ábyrgð. Hlutirnir sem voru í gangi utan vallar höfðu slæm áhrif á mig. Ég veit hvað ég get og hvaða gæðum ég bý yfir. Ég spilaði ekki á HM að ástæðulausu. Ég er ekki kominn aftur í landsliðið án þess að geta eitthvað,“ sagði Antony.

„Ég tek samt mína ábyrgð á því að hlutirnir gengu ekki upp og ég spilaði ekki eins og vel og ég get. Ég reyni alltaf að sjá það jákvæða og kannski var nauðsynlegt fyrir mig að fara í gegnum þennan tíma hjá United til að læra betur á mig sjálfan,“ sagði Antony.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×