Íslenski boltinn

Bjarni Guð­jóns tók einn KR-ing sér­stak­lega fyrir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Finnur Tómas Pálmason fékk að heyra það frá Bjarna Guðjónssyni í Stúkunni.
Finnur Tómas Pálmason fékk að heyra það frá Bjarna Guðjónssyni í Stúkunni. Vísir/Anton Brink

Leikmenn KR fengu að heyra það frá fyrrum fyrirliða og þjálfara liðsins eftir að hafa sofnað enn á ný í varnarleiknum um helgina. Það var einkum einn leikmaður sem fékk harða gagnrýni frá KR goðsögninni.

KR-ingar fengu á sig mögulega afar dýrkeypt jöfnunarmark undir lokin á móti Aftureldingu um helgina og sitja fyrir vikið í neðsta sæti Bestu deildar karla þegar tvær umferðir eru eftir.

Bjarni Guðjónsson hafði sterkar skoðanir á varnarleik KR í þessu mikilvæga marki Mosfellinga og þá sérstaklega á frammistöðu Finns Tómasar Pálmasonar.

Klippa: Bjarni Guðjóns fór yfir frammistöðuna hjá Finni Tómasi í sumar

„Hér er Michael Akoto að berjast og reyna að vinna boltann en það sem aðrir leikmenn KR inn í vítateignum gera hér og hafa gert ítrekað í sumar eru vinnubrögð sem eru ekki viðunandi,“ sagði Bjarni Guðjónsson.

Finnur fær að heyra það

„Akoto er að berjast en Finnur Tómas [Pálmason] stendur kyrr. Þarna kemst einn Mosfellingur í boltann, boltinn fer í stöngina, hrekkur aftur út og næsti kemur í boltann. Finnur Tómas hefur ekki ennþá tekið skref í átt að boltanum til að reyna að hreinsa boltann út úr vítateignum,“ sagði Bjarni.

„Á hættulegasta staðnum á vellinum, beint fyrir framan markið þitt. Þarna ertu að spila með liði sem er að berjast fyrir lífi sinu og fyrir því að halda sér í deildinni,“ sagði Bjarni.

Bjarni tók síðan fyrir fjölmörg fleiri dæmi um vandræðalegan varnarleik Finns í sumar.

Ekki bara eitt skipti

„Hann fattar það ekki hvar hættuna staðar að,“ sagði Bjarni og hélt áfram: „Þetta er ekki bara eitt skipti. Þetta eru bara síendurtekin atvik. Við hefðum getað tekið mikið fleiri atvik,“ sagði Bjarni.

„Það verður að vera krafa á þá sem eru að spila leikinn sem og þeirra sem horfa á leikinn og borga sig inn á leikinn að þeir sem fara inn í eigin vítateig hafi meiri áhuga á því að verja markið sitt heldur en KR sýnir ítrekað í allt sumar,“ sagði Bjarni.

Það má horfa á þessa samantekt og heyra skoðun Bjarna hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×