Skoðun

Við viljum nafn

Jón Kaldal skrifar

Hvað gerðist i innviðaráðuneytinu?

Í gær rann út frestur til að senda inn umsögn um drög innviðaráðuneytisins að frumvarpi til laga um breytingar á lögum um fjarskipti, lögum um Fjarskiptastofu og lögum um fjölmiðla. Þar var meðal annars að finna fráleita tillögu um að færa innviðaráðherra heimild til að veita undanþágu fyrir botnfestingum fyrir sjókvíar innan helgunarsvæða fjarskiptastrengja, sem eru bókstaflega lífæð fjarskipta Íslands við umheiminn.

Af um tvö hundruð umsögn er aðeins að finna stuðning við þessa einkennilegu tillögu í einni umsögn og hún er frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), sem gæta af hörku hagsmuna sjókvíaeldisfyrirtækjanna.

Myndin er frá VÁ - Félagi um vernd fjarðar sem var stofnað af íbúum Seyðisfjarðar til að berjast gegn áformum um sjókvíaeldi í firðinum.

Aðrar umsagnir vara mjög við þessari hugmynd. Þar á meðal er FARICE, eigandi sæstrengsins sem liggur um Seyðisfjörð til Færeyja og Skotlands þar sem hann tengir íslenska fjarskiptakerfið við það evrópska. Samtök iðnaðarins og Ljósleiðarinn leggjast líka gegn tillögunni um undanþágu, enda er hún augsýnilega „til þess fallin að grafa undan öryggi fjarskiptainnviða og almannahagsmuna“ einsog segir í umsögn Ljósleiðarans.

Að þessi hugmynd hafi engu að síður ratað inn í frumvarpsdrögin sýnir með sérstaklega skýrum hætti ítök SFS í opinberri stjórnsýslu.

Það er rannsóknarefni hvernig hugmynd um undanþágu frá þjóðaröryggismáli, og sem augljóslega er sniðin að hagsmunum fyrirtækis sem vill koma sjókvíum í Seyðisfjörð, hafi rataði inn í frumvarpsdrög frá ráðuneytinu.

Hvað gerðist? Hver ber ábyrgð á því innan ráðuneytisins? Við viljum nafn.

Höfundur er talsmaður Íslenska náttúruverndarsjóðsins (iwf.is)




Skoðun

Sjá meira


×