Fótbolti

Engin hjarta­að­gerð en smá magnyl skaðar ekki

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arnar segir ekki þörf á því að umbylta leik liðsins, enda gengið vel.
Arnar segir ekki þörf á því að umbylta leik liðsins, enda gengið vel. Andrew Milligan/PA Images via Getty Images

Ekki má búast við miklum breytingum á íslenska landsliðinu sem mætir því úkraínska í undankeppni HM 2026 á Laugardalsvelli í dag, ef marka má landsliðsþjálfarann. Fáum dylst mikilvægi leiksins upp á framhaldið.

Ísland og Úkraína mætast klukkan 18:45 í kvöld. Leikurinn er sýndur beint á Sýn Sport í opinni dagskrá og hefst útsending klukkan 18:00.

Ísland hóf undankeppnina vel, með 5-0 sigri á Aserum hér heima og fylgdi því eftir með naumu 2-1 tapi fyrir Frökkum þar sem strákarnir hefðu að líkindum náð í stig ef ekki hefði verið fyrir inngrip myndbandsdómara á ögurstundu.

Úkraína missteig sig gegn Aserbaídsjan á meðan strákarnir voru í París og er Ísland því í lykilstöðu, með þrjú stig í öðru sæti, á meðan Úkraína og Aserar eru með eitt hvort þar fyrir neðan.

„Það er gríðarlega mikilvægt upp á að halda skriðþunganum gangandi. Við þurftum að vinna mikið fyrir honum og í íþróttum getur hann farið á núll einni með slakri frammistöðu, segir Arnar Gunnlaugsson í samtali við íþróttadeild.

„Með sigri erum við komnir í góða stöðu, jafntefli er enginn heimsendir og tap, þá þarf að endurskipuleggja planið. Hugarfarið er að fara út og vinna leikinn. Við þurfum að vera virkilega agaðir í okkar leik og ekki láta tilfinningar ráða för og fara út í vitleysu. Ef við gerum taktísk mistök eru þeir með gæði til að refsa okkur. Það má ekki einn maður fara út að ætla að vinna þennan leik. Það er taktíkin og strúktúrinn sem kemur þessu yfir línuna fyrir okkur,“ segir Arnar.

Munar um Zinchenko

Oleksandr Zinchenko, leikmaður Nottingham Forest, sem lék áður með Arsenal og Manchester City, er þekktasta stærðin innan úkraínska liðsins. Hann verður ekki með í kvöld vegna meiðsla.

Zinchenko ræðir hér málin við Albert Guðmundsson en sá fyrrnefndi mun þurfa að horfa á leikinn úr sófanum í kvöld.Andrzej Iwanczuk/NurPhoto via Getty Images

„Það hefur áhrif. Hann er mjög áhugaverður bakvörður sem er í raun að stýra spilinu fyrir þá, eins og hann gerði hjá Arsenal og City á sínum tíma. Auðvitað breytir það leikstílnum aðeins. Hann er stór póstur í þeirra liði, taktíkin mun breytast aðeins hjá þeim. En þetta er hörkulið og góða leikmenn og góðan þjálfara,“ segir Arnar sem segir okkar menn mæta öllu rólegri til leiks en andstæðingurinn.

„Ég var hrifinn af þeim á móti Frökkunum en gegn Aserum tókst þeim ekki að skora. Þeir koma hingað semi stressaðir og skelkaðir, eðlilega. Því þá vantar úrslit, alveg klárlega, þannig að það er meðbyr sem við vonandi náum að nýta okkur.“

Óþarfi að breyta því sem virkar

Íslenska liðið hóf undankeppnina vel og því ekki von á miklum breytingum á liðsvalinu. En má búast við einhverju óvæntu af hálfu Arnars?

„Það kemur alltaf eitthvað skemmtilegt upp úr hattinum. En mér finnst eins og strúktúrinn og tenging á milli leikmanna sé að verða betri. Það er engin ástæða til að fara í einhverja almenna hjartaaðgerð en það má mögulega gefa eina og eina magnyl öðru hverju,“ segir Arnar og bætir við:

„Mögulega verða einhver öðruvísi pressukerfi og svoleiðis sem er líka bara hollt fyrir strákana. Þetta er eins og að vera krakki í leikfangabúð að vinna með þessum elítuleikmönnum því þeir eru svo fljótir og meðtækilegir á að hlusta í bullið í mér og meðtaka það sem er sagt við þá. Það verða einhverjar litlar smáatriðisbreytingar.“

Viðtalið má sjá í heild í spilaranum að neðan.

Klippa: Arnar ræðir leikinn við Úkraínu

Tengdar fréttir

„Getum eyðilagt drauma Úkraínu á morgun“

Arnar Gunnlaugsson segir að íslenska karlalandsliðið í fótbolta komi sér í vænlega stöðu í D-riðli undankeppni HM 2026 með sigri á Úkraínu annað kvöld.

„Ekki alltaf hægt að tala vel um mann“

Aron Einar Gunnarsson segir slæmt umtal undanfarið ekki bíta og telur það jafnvel jákvætt að gagnrýnisraddir heyrist þegar hann er valinn í landsliðshóp.

„Staða mín er svolítið erfið“

Þórir Jóhann Helgason segist hungraður í að fá að spila mínútur, bæði með íslenska landsliðinu og liði sínu Lecce á Ítalíu. Framundan eru tveir risaleikir hjá Íslandi, gegn Úkraínu á föstudag og Frakklandi á mánudag, í undankeppni HM í fótbolta.

Ísak lofar að hlaupa mest: „Mjög gaman að sjá fólkið bakka okkur upp“

„Það er mjög gaman að sjá að fólkið er að bakka okkur upp, og að það sé uppselt á báða leikina. Það er mjög spennandi,“ segir Ísak Bergmann Jóhannesson. Hann ætlar að hlaupa manna mest á Laugardalsvelli á föstudaginn, í leiknum mikilvæga við Úkraínu í undankeppni HM í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×