Fótbolti

„Ég held að hann verði að skoða þetta“

Sindri Sverrisson skrifar
Lárus Orri Sigurðsson setti spurningamerki við það að Ísland skyldi ekki vera með varnarsinnaðan miðjumann gegn Úkraínu í kvöld.
Lárus Orri Sigurðsson setti spurningamerki við það að Ísland skyldi ekki vera með varnarsinnaðan miðjumann gegn Úkraínu í kvöld. Samsett/Sýn/Anton

Í uppgjörinu á Sýn Sport eftir 5-3 tap Íslands gegn Úkraínu í kvöld fór Lárus Orri Sigurðsson yfir þá ákvörðun Arnars Gunnlaugssonar landsliðsþjálfara að tefla aftur þeim Ísaki Bergmanni Jóhannessyni og Hákoni Arnari Haraldssyni tveimur saman á miðju íslenska liðsins.

„Ég held að hann verði að skoða þetta,“ segir Lárus Orri, þjálfari Skagamanna og fyrrverandi landsliðsmaður í fótbolta, en brot úr umræðunni má sjá hér að neðan.

Ísak og Hákon þóttu koma vel út saman á miðjunni gegn Frökkum í síðasta mánuði, þó að hvorugur þeirra sé sérstaklega varnarsinnaður miðjumaður, eða „sexa“.

Í kvöld voru þeir aftur saman á miðjunni í 5-3 tapinu gegn Úkraínu – tapi sem gerir Íslandi afar erfitt fyrir að komast á HM – og velti Lárus því fyrir sér hvort varfærnari nálgun hefði skilað betri árangri.

„Við erum með tvo miðjumenn þarna sem eru ekki „sexur“. Þeir eru báðir agressívir. Ástæðan fyrir því að hann er ekki með Stefán Teit er örugglega sú að hann hefur ekki verið að spila með sínu félagsliði…

Ég held að leikplanið fyrir leik hljóti að hafa verið að við ætluðum að pressa á þá, nýta vélina í þessum tveimur miðjumönnum til þess, og þess á milli leggjast niður djúpt og þétta liðið. Gera það þannig auðveldara fyrir þessa tvo miðjumenn að verjast. En það bara gekk ekki eftir, því við fengum á okkur mörk í fyrri hálfleik úr einstaklingsmistökum. Hvort við hefðum komið í veg fyrir þessi mörk ef við hefðum verið með sexu? Já, örugglega eitthvað af þeim,“ sagði Lárus á Sýn Sport eftir leik eins og sjá má í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Einkunnir íslenska liðsins: Albert fremstur á meðal jafningja

Albert Guðmundsson stóð sig best hjá íslenska liðinu þegar liðið laut í lægra haldi fyrir Úkraínu í undankeppni HM 2026 í fótbolta karla á Laugardalsvelli í kvöld. Albert skoraði tvö mörk í leiknum og var þess fyrir utan mikið í boltanum. 

Uppgjörið: Ísland - Úkraína 3-5 | Óhamingjunni varð allt að vopni

Ísland tapaði 3-5 fyrir Úkraínu á Laugardalsvelli í undankeppni HM 2026 í kvöld. Íslendingar voru 1-3 undir í hálfleik, Albert Guðmundsson jafnaði með tveimur mörkum í seinni hálfleik en Úkraínumenn skoruðu tvö mörk undir lokin og tryggðu sér sigurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×