Erlent

Heims­frægur barnaníðingur drepinn af sam­föngum

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Ian fannst látinn í gærmorgun.
Ian fannst látinn í gærmorgun. Lögreglan í Wales

Ian Watkins, fyrrverandi söngvari velsku rokkhljómsveitarinnar Lostprophets, er látinn eftir að ráðist var á hann í fangelsi, þar sem hann afplánaði 29 ára langan fangelsisdóm fyrir gróft barnaníð.

Greint er frá andlátinu á BBC en þar segir að lögregluyfirvöld í Vestur-Jórvík hafi handtekið tvo menn sem grunaðir eru um að hafa myrt Ian. Annar þeirra sé 25 ára og hinn 43.

Kallað var eftir aðstoð lögreglunnar snemma á laugardaginn vegna grófrar líkamsárasar gegn fanga, og var Ian úrskurðaður látinn á vettvangi.

Forsvarsmenn fangelsisins segja að þeir viti af atvikinu en geti ekkert meira sagt meðan lögreglurannsókn stendur yfir.

Gangandi skotmark samfanga

Fyrir tveimur árum fannst Ian illa haldinn í klefa sínum í fangelsinu eftir að þrír samfangar hans réðust á hann vopnaðir eggvopni. 

Sagt var frá því að Watkins hefði verið gangandi  skotmark annarra fanga vegna eðlis glæpa hans.

Ian var dæmdur árið 2013 til 29 ára langrar fangelsisvistar eftir að hafa gengist við því að fremja gróf kynferðisbrot gegn börnum.

Meðal annars fékk hann aðdáendur sína, tvær konur, til þess að misnota sín eigin börn til þess að geðjast honum. SMS-skilaboð sem Watkins sendi annarri konunni voru lesin upp í réttarhöldunum en þar sagði Watkins: „Ef þú tilheyrir mér, þá gerir barnið þitt það líka.“

Sönnunargögn, myndir og myndbönd sem sýna börn beitt grófu kynferðislegu ofbeldi fundust í tölvum og símum Watkins. Eitt af myndböndunum sýnir eins árs gamalt barn beitt grófu ofbeldi en Watkins bar við minnisleysi í þeim ákærulið.

Hljómsveit Watkins, Lostprophets, var stofnuð árið 1997 og gaf út fimm breiðskífur, þar af eina sem komst á topp vinsældarlistans í Bretlandi. Hljómsveitin seldi milljónir platna og fyllti iðullega stóra tónleikastaði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×