Sport

Mun Zidane taka við af Deschamps?

Árni Jóhannsson skrifar
Zinedine Zidane var einkar sigursæll sem þjálfari Real Madrid og hér fær hann heiðurstolleringu.
Zinedine Zidane var einkar sigursæll sem þjálfari Real Madrid og hér fær hann heiðurstolleringu. VÍSIR/GETTY

Einn af betri leikmönnum og þjálfurum knattspyrnusögunnar, Zinedine Zidane, er aftur á leiðinni í þjálfun eftir ansi langt hlé frá starfinu. Hann var í viðtali á íþróttahátíðinni í Trento þar sem hann fór yfir stöðuna.

Zidane, sem síðast þjálfaði Real Madrid árið 2021, sagði í viðtalinu að hann myndi pottþétt snúa aftur út í þjálfun. Hann gaf þá vel í skyn að franska landsliðið væri í sigtinu hjá honum.

„Ég veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Mér finnst hinsvegar eins og að ég geti gert eitthvað með franska landsliðinu og það er eitthvað sem ég vil gera einhvern daginn.“

Áður hafði hann talað um áhuga sinn á að taka við franska landsliðinu en tímapunkturinn núna er áhugaverður því Didier Deschamps er búinn að gefa í skyn að hann muni ljúka leik með landsliðinu eftir lokamótið 2026. Hann hefur stýrt liðinu síðan árið 2012 og unnið HM einu sinni og lent í öðru sæti einu sinni. 

„Ég hætti eftir HM ´26, það er alveg skýrt í höfði mínu. Ég er búinn að skila mínu með sömu ástríðunni við að halda Frakklandi í hæstu hillu en 2026 er mjög góður tími til að hætta,“ sagði Deschamps í janúar á þessu ári.

Franska knattspyrnusambandið hefur ekki gefið neitt út um hver tekur við en Zidane er klárlega búinn að setja nafn sitt í hattinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×