Skoðun

Þögnin í há­skólanum

Þórdís Hólm Filipsdóttir skrifar

Af hverju talar enginn?

Af hverju erum við öll svona varkár, eins og við göngum á eggjaskurnum, gætum þess að rekast ekki í eitthvað ósýnilegt — orð, skoðun, viðhorf sem gæti meitt einhvern?

Háskólinn kennir okkur að hugsa sjálfstætt, að spyrja spurninga, að rannsaka, að upplýsa, að fara inn í myrkrið með ljós í höndunum. En samt — þegar við horfum í kringum okkur — er þar oft meira myrkur en ljós. Ekki vegna skorts á þekkingu, heldur vegna þagnar. Þögnin er nýtt form af kurteisi. Hún er búningur virðingar, en undir henni býr ótti. Ótti við að segja eitthvað vitlaust, að hljóma óviturlega, að verða dreginn í efa, að missa tilverurétt í samfélagi sem segist elska gagnrýna hugsun — en umbunar samhljómi.

Við tölum um fjölbreytni hugsana, en aðeins svo lengi sem hún hljómar innan viðurkenndra tóna. Við tölum um frjálsa umræðu, en hún þarf að vera fagleg, má ekki verða of tilfinningaleg, má ekki hrista róteindina í kerfinu.

Þannig verða fræðin að trú — og kennararnir að prestum. Nemendur læra að skrifa rétt, en ekki endilega að hugsa djúpt. Við tölum í hugtökum, en týnum lífinu sem hugtökin voru einu sinni til að lýsa. Kannski er það mesta hræsni nútíma fræðasamfélagsins: að tala endalaust um gagnrýna hugsun — á meðan allir eru hræddir við að hugsa gagnrýnið.

Ég hef alltaf verið hrædd við háskólann

Ég hef alltaf verið hrædd við háskólann. Og reið. Ég hélt lengi að það væri vegna þess að mér hafði verið sagt ég væri manneskja sem gæti ekki lært.

En það var ekki ástæðan. Það var eitthvað annað — eitthvað sem ég fann, en gat ekki nefnt. Ég fann það í loftinu milli orða, í formlegum brosum, í varkárum spurningum sem máttu ekki vera of hráar, of lifandi, of manneskjulegar. Ég fann það þegar ég opnaði munninn og orð mín birtust eins og þau væru á röngum stað. Ekki af því að þau væru röng, heldur af því að þau voru ekki sniðin að tungunni sem átti heima þar. Það sem ég fann var vald.

Ekki vald í beinni merkingu —heldur vald sem loðir við menningu, við þögnina, við formin sem segja:

„Svona á þetta að hljóma.“

Það sem ég fann var ekki skólinn sjálfur, heldur það ósagða sem hann stendur á.

Fólkið í fræðunum

Og sorglegast af öllu er að fólk innan fræðasamfélagsins lifirsjálft í sársauka. Það þráir að tilheyra, að finna samhug, að tala frá hjartanu — en getur það ekki, því það veit að það talar inn í þögn. Með varkárni. Með óbeinni leiðréttingu í nafni fagmennsku.

Þannig sitja margir við skrifborðin sín, í rými gagnrýnnar hugsunar, með hugann fullan af vangaveltum sem þeir þora ekki að segja frá upphátt. Ekki vegna þess að þeir séu huglausir, heldur vegna þess að menningin sjálf hefur kennt þeim að þögn sé öruggari en áhætta. Þannig varð varkárnin að siðferðisdygð, og forvitnin að áhættuhegðun.

Þegar ég fór að skilja

Þessi hræðsla mín var ekki veikleiki. Hún var skynjun. Reiðimín var ekki mótþrói. Hún var innsæi. Ég fann ósýnilegt vald sem temur tunguna, mýkir röddina, fléttar forvitni í rétt form.

En ég veit núna

að það er ekki ég sem þarf að laga mig að þessu kerfi — það er kerfið sem þarf að muna af hverju það er.

Fræðin eiga ekki að verja sig fyrir lífi. Þau eiga að þjónusta það.

Þegar þögnin brestur

Vonin byrjar ekki með stefnuskrá. Hún byrjar þegar einhver þorir að segja eitthvað sem hreyfir við loftinu. Kannski er það lítið. Eitt orð sem ekki fellur að forminu. Eitt augnablik þegar kennari hlustar ekki til að meta, heldur til að skilja.

Þegar einhver segir:

„Ég er ekki viss,

en ég finn þetta svona,“

og fær að halda áfram — án þess að það sé leiðrétt. Þegar það gerist, færist eitthvað lítið, en raunverulegt. Þá brestur þögnin. Ekki með hávaða, heldur með andardrætti. Og kannski er það nóg.

Að einhvers staðar inni í þessum veggjum byrji fólk að tala aftur, ekki til að hafa rétt fyrir sér — heldur til að lifa.

Höfundur er heildrænn ráðgjafi og meistaranemi í heildrænum náttúruvísindum.




Skoðun

Sjá meira


×