Fótbolti

Gæti náð Liverpool-leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Trent Alexander-Arnold kvaddi Liverpool sem Englandsmeistari.
Trent Alexander-Arnold kvaddi Liverpool sem Englandsmeistari. Getty/Liverpool FC

Trent Alexander-Arnold fór frá Liverpool til Real Madrid í sumar eins og frægt var og auðvitað mættust liðin síðan í Meistaradeildinni. Það leit út fyrir að meiðsli enska bakvarðarins myndu taka frá honum leikinn en nú líta hlutirnir betur út.

Endurhæfing Trent Alexander-Arnold gengur samkvæmt áætlun og það eru líkur á að hægri bakvörður Real Madrid verði klár í slaginn gegn sínu gamla félagi í nóvember.

Hinn 27 ára Trent meiddist aftan í læri í leik gegn franska liðinu Marseille í riðlakeppni keppninnar þann 16. september. Alexander-Arnold þurfti að fara af velli á fimmtu mínútu og heimildir hermdu á þeim tíma að hann gæti verið frá í allt að sex vikur.

Real heimsækir Liverpool þann 4. nóvember í Meistaradeildinni sem er nákvæmlega sjö vikum eftir að meiðslin áttu sér stað.

Heimildir BBC Sport herma að bati leikmannsins gangi vel og vonir standa til að Alexander-Arnold geti snúið aftur á Anfield í fyrsta sinn síðan hann gekk til liðs við spænska stórliðið í júní.

Trent var Liverpool-stuðningsmaður frá blautu barnsbeini og sagði að það að yfirgefa félagið sem hann gekk til liðs við sex ára gamall í akademíunni hafi verið „erfiðasta ákvörðun sem ég hef nokkurn tímann tekið“. Hún var líka afar óvinsæl hjá stuðningsmönnum Liverpool sem voru margir fljótir að líta á hann sem svikara.

Alexander-Arnold lék 354 leiki fyrir Rauða herinn og vann meðal annars tvo enska úrvalsdeildartitla, einn Meistaradeildartitil og enska bikarinn.

Frá því hann flutti til Madríd hefur Alexander-Arnold bara spilað fimm leiki fyrir félagið í öllum keppnum, samtals aðeins 156 mínútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×