Íslenski boltinn

Sjáðu ó­trú­legt mark Hall­gríms frá miðju

Sindri Sverrisson skrifar
Hallgrímur Mar Steingrímsson hefur nú skorað tólf mörk í Bestu deildinni í ár.
Hallgrímur Mar Steingrímsson hefur nú skorað tólf mörk í Bestu deildinni í ár. vísir/Anton

Hallgrímur Mar Steingrímsson gæti hafa skorað mark tímabilsins í Bestu deild karla í fótbolta í gær þegar hann skaut frá eigin vallarhelmingi og skoraði gegn ÍA.

Það voru skoruð glæsileg mörk í gær í leikjunum þremur sem skiptu svo miklu máli í fallbaráttu Bestu deildarinnar. Mörkin má sjá í spilaranum hér að neðan.

Svo fór að sæti ÍA er nú tryggt, þrátt fyrir 5-1 tap gegn KA. KR vann ÍBV 2-1 en Afturelding og Vestri gerðu 1-1 jafntefli þar sem jöfnunarmark Ágústs Eðvalds Hlynssonar kom á síðustu sekúndu.

Vestri (29 stig), KR (28 og Afturelding (27) berjast í lokaumferðinni næsta laugardag um að halda sér uppi. Vestri og KR mætast á Ísafirði og sigurliðið bjargar sér frá falli en geri liðin jafntefli dugar Aftureldingu að vinna ÍA til að komast upp fyrir þau bæði og bjarga sér.

KR-ingar unnu ÍBV í gær með mörkum Arons Sigurðarsonar og Eiðs Gauta Sæbjörnssonar sem skoraði með glæsilegum skalla á 63. mínút. Öll mörkin komu á aðeins sjö mínútna kafla en Oliver Heiðarsson hafði jafnað metin fyrir ÍBV.

Hrannar Snær Magnússon skoraði mark Aftureldingar sem virtist ætla að verða sigurmarkið gegn Vestra þar til á sjöttu mínútu uppbótartíma að Ágúst jafnaði metin eftir aukaspyrnu og hélt liðinu fyrir ofan fallstrikið.

Á Akureyri skoraði Baldvin Þór Berndsen glæsimark til að koma ÍA yfir en Birgir Baldvinsson og Hallgrímur Mar komu KA yfir fyrir hálfleik. Ingimar Stöle og Ásgeir Sigurgeirsson bættu við mörkum í seinni hálfleik áður en Hallgrímur innsiglaði sigurinn með miðjumarkinu glæsilega en hann hefur þar með skorað tólf mörk í Bestu deildinni í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×