Innlent

Börn og ung­lingar funda á Hvols­velli um sín mál

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Fannar Óli Ólafsson, sem er formaður ungmennaráðs Rangárþings eystra.
Fannar Óli Ólafsson, sem er formaður ungmennaráðs Rangárþings eystra. Aðsend

Ærslabelgur og aparóla eru tvö af þeim atriðum, sem Barna- og ungmennaþing á Hvolsvelli hafa komið í gegn hjá sveitarstjórn Rangárþings eystra og eru orðin að veruleika. Nú er það gervigrasvöllur, sem unga fólkinu dreymir um að fá á Hvolsvöll.

Barna- og ungmennaþing Rangárþings eystra er haldið í dag í Hvolnum á Hvolsvelli. Um 50 börn úr fyrsta til sjötta bekk hafa setið þingið í morgun og nú eftir hádegi mæta unglingar úr sjöunda bekk og upp úr á þingið. Fannar Óli Ólafsson er formaður ungmennaráðs sveitarfélagsins.

„Við fáum til okkar krakka í grunnskólanum og einnig mega 16 til 18 ára krakkar mæta og við skiptum þeim niður í hópa og spjöllum við þau um málefni, sem mætti betur fara á Hvolsvelli. Þau koma með sínar hugmyndir og skoðanir á hlutum,“ segir Fannar Óli.

Barna- og ungmennaþingið fer fram í Hvolnum á Hvolsvelli í dag.Aðsend

Ungmennaráðið fer svo með hugmyndirnar til sveitarstjórnar, sem ákveður hvað verður gert með þær.

Er sveitarstjórnin eitthvað að hlusta á ykkur?

Já alveg klárlega. Við erum búin að halda svona þing í fimm ár og það hafi komið ýmsar hugmyndir, til dæmis voru hugmyndir um að fá aparólu og ærslabelg á Hvolsvöll, sem var bara farið strax í og hérna er aparóla og ærslabelgur, sem er nýtt á hverjum einasta degi,“ segir Fannar.

Hressir krakkar á þinginu.Aðsend

Fannar Óli segir að nú sé gervigrasvöllur efst á baugi hjá börnunum og unglingunum og vonast hann til að hann verði settur upp, sem fyrst á Hvolsvelli.

En er gott að alast upp á Hvolsvelli og í sveitunum þar í kring?

„Það er bara geggjað held ég, voða næs samfélag,“ segir Fannar Óli kátur og hress.

Fannar Óli Ólafsson, sem er formaður ungmennaráðs Rangárþings eystra.

Þingið fer fram í Hvolnum á Hvolsvelli í dag.

Mikil ánægja er með þingið á Hvolsvelli.Aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×