Handbolti

Haukur magnaður í sigri Löwen

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Haukur Þrastarson kom að tuttugu mörkum.
Haukur Þrastarson kom að tuttugu mörkum.

Selfyssingurinn Haukur Þrastarson átti algjörlega magnaðan leik er Rhein-Neckar Löwen vann fjögurra marka sigur gegn Stuttgart í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag, 38-34.

Jafnt var á öllum tölum stærstan hluta leiksins og mikið skorað í fyrri hálfleik. Staðan var 20-20 þegar hálfleiksflautið gall og liðin gengu til búningsherbergja, og þá var Haukur þegar kominn með átta mörk og þrjár stoðsendingar.

Svipaða sögu er að segja af síðari hálfleik þar sem hvorugt liðið virtist geta hrifsað til sín forystuna.

Heimamenn í Löwen náðu þó að síga fram úr undir lok leiks og unnu að lokum fjögurra marka sigur, 38-34.

Haukur endaði með 14 mörk og fimm stoðsendingar fyrir Rhein-Neckar Löwen, sem situr í sjöunda sæti deildarinnar með tólf stig eftir tíu leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×