Erlent

Elsti for­seti heims endur­kjörinn í skugga mót­mæla

Kjartan Kjartansson skrifar
Stuðningsmenn frambjóðanda stjórnarandstöðunnar mótmæltu á götum Kamerún í gær. Öryggissveitir skutu fjóra til bana í borginni Douala.
Stuðningsmenn frambjóðanda stjórnarandstöðunnar mótmæltu á götum Kamerún í gær. Öryggissveitir skutu fjóra til bana í borginni Douala. Ap/Welba Yamo Pascal

Æðsti dómstóll Kamerún lýsti Paul Biya sigurvegara kosninga sem fóru fram fyrr í mánuðinum í dag. Biya er elsti forseti í heimi en hann verður á hundraðasta ári þegar kjörtímabili hans lýkur. Fjórir hafa fallið í átökum mótmælenda og öryggissveita en stjórnarandstaðan telur að brögð hafi verið í tafli í kosningunum.

Forsetakosningarnar í Kamerún fóru fram 12. október. Stjórnarandstaðan sakar Biya um að hafa hagrætt kosningunum, meðal annars með því að banna helsta keppinauti hans að bjóða sig fram. Öryggissveitir skutu fjóra mótmælendur til bana í Douala í gær, að sögn AP-fréttastofunnar.

Stjórnlagadómstóll landsins lýsti Biya sigurvegara í dag. Hann hefði hlotið 53,66 prósent atkvæða gegn 35,19 prósentum Issa Tchiroma Bakary, fyrrum bandamanns síns.

Paul Biya (f.m:) þegar hann greiddi atkvæði í forsetakosningnum í Kamerún 12. október 2025. Hann verður 99 ára gamall þegar sjö ára kjörtímabili hans lýkur.Vísir/EPA

Tschiroma hafði lýst yfir sigri og byggði það á úrslitum sem flokkur hans tók saman. Biya hefur vísað þeirri niðurstöðu á bug. 

Biya hefur stjórnar Kamerún samfleytt frá árinu 1982. Takmörk á hversu mörg kjörtímabil forseti getur setið voru afnumin svo hann gæti haldið áfram að bjóða sig fram. Lifi Biya svo lengi verður hann 99 ára gamall þegar kjörtímabili hans lýkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×