Fótbolti

Anguissa hetja meistaranna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sigurmark Napoli í uppsiglingu.
Sigurmark Napoli í uppsiglingu. EPA/ABBONDANZA SCURO LEZZI

Tveir leikir fóru fram í Serie A, efstu deild karla á Ítalíu, í kvöld. Ítalíumeistarar Napoli lögðu Lecce naumlega á meðan Atalanta og AC Milan gerðu 1-1 jafntefli.

Miðjumaðurinn Frank Anguissa reyndist hetja Ítalíumeistara Napoli þegar lærisveinar Antonio Conte unnu nauman 1-0 útisigur á Lecce. Sigurmarkið kom á 69. mínútu en fyrr í leiknum hafði hinn 17 ára gamli Francesco Camarda brennt af vítaspyrnu fyrir heimaliðið.

Þórir Jóhann Helgason sat allan tímann á varamannabekk Lecce sem situr nú í 16. sæti með sex stig að loknum níu leikjum.

Atalanta tók á móti AC Milan. Samuele Ricci kom gestunum frá Mílanó yfir snemma leiks en Ademola Lookman jafnaði metin áður en fyrri hálfleik var lokið, staðan 1-1 er gengið var til búningsherbergja. Þar sem ekkert var skorað í síðari hálfleik reyndust það lokatölur leiksins.

Napoli er því á toppi deildarinnar með 21 stig, AC Milan er í 3. sæti með 18 stig líkt og Roma sem er sæti ofar á meðan Atalanta er í 7. sæti með 13 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×