Körfubolti

Haukur Helgi: Höfum ekki verið að spila góðan körfu­bolta

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson í leik með Álftnesingum.
Haukur Helgi Pálsson í leik með Álftnesingum. vísir/Anton

„Þeir voru að finna mig og skotið var að detta. Mér leið bara mjög vel,“ sagði Haukur Helgi Pálsson hetja Álftnesinga í sigrinum á Njarðvík í kvöld.

Eftir að hafa verið að glíma við meiðsli og misst af Eurobasket steig Haukur Helgi upp í kvöld og hreinlega bauð upp á sýningu í Kaldalónshöllinni. Hann hitti úr öllum sínum skotum nema tveimur og var maðurinn sem Njarðvík gat ekki stöðvað.

„Ég var ekki að hugsa mikið og bara í flæðinu. Það er einfaldasta útskýringin á þessu. Ég hélt ég hefði klikkað á fleiri skotum. Þetta var ljúft. Alltaf gott að eiga góðan leik en það skiptir mestu að hafa fengið sigur.“

Eftir að hafa tapað tveimur leikjum í röð var smá pressa á Álftnesingum í kvöld.

„Mér fannst við stíga upp sem lið í kvöld og við þurftum að gera það. Við erum enn að reyna að finna okkur og okkar leik,“ segir Haukur en hann hefur ekki verið nógu ánægður með liðið í vetur.

„Mér finnst við ekki hafa verið að spila mjög góðan körfubolta. Við höfum verið svolítið flatir og flæðið í sókninni hefur verið stirt og skrýtið. Við erum enn að finna okkar leik eins og fleiri. Njarðvíkingar voru klókir í lokin með svæðisvörn og slógu okkur aðeins út af laginu. Sem betur fer kom það seint og við verðum að skoða það. Það var mjög gott að sjá okkur með boltann í blálokin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×