Fótbolti

Ís­land fær eitt lakara lið í sinn riðil

Sindri Sverrisson skrifar
Systurnar Hlín og Arna Eiríksdætur féllust í faðma eftir að Hlín skoraði gegn Norður-Írlandi í vikunni.
Systurnar Hlín og Arna Eiríksdætur féllust í faðma eftir að Hlín skoraði gegn Norður-Írlandi í vikunni. vísir/Anton

UEFA, Knattspyrnusamband Evrópu, hefur staðfest hvernig styrkleikaflokkarnir líta út fyrir dráttinn á þriðjudag, í undankeppni HM kvenna í fótbolta. Ísland verður í þriðja flokki í A-deild.

Stelpurnar okkar tryggðu sér áframhaldandi veru í A-deild með afar sannfærandi hætti þegar þær unnu einvígið við Norður-Írland, samtals 5-0.

Í umspilinu á milli liða sem endað höfðu í 3. sæti í A-deild og 2. sæti í B-deild voru Írar eina liðið úr B-deild sem náði að komast upp í A-deild. Þeir verða hins vegar að sætta sig þar við sæti í fjórða og neðsta styrkleikaflokki en Pólverjar færast upp í 3. flokk með Íslandi (sem það sigurlið riðils í B-deild sem hlaut flest stig í ár).

Ísland mun á þriðjudaginn dragast í riðil með einu liði úr efsta flokki, einu úr öðrum flokki og einum úr fjórða flokki. Ef liðinu tekst að forðast neðsta sætið á það mjög fína möguleika á að komast á HM í gegnum umspil, þar sem mótherjarnir yrðu þá fyrst lið úr C-deild og svo lið úr B-deild eða lið úr neðsta sæti í A-deild.

Sigurlið riðlanna í A-deild komast beint á HM en öll hin liðin í A-deild fara svo í umspil ásamt liðum úr B- og C-deild. Alls verða 32 lið í umspilinu sem skiptist í tvo hluta og tvær umferðir, og er leið liðanna „auðveldari“ eftir því sem þau hafa endað ofar.

Styrkleikaflokkana í A-deild fyrir dráttinn á þriðjudag má sjá hér að neðan.

Flokkur 1:

  • Frakkland
  • Þýskaland
  • Spánn
  • Svíþjóð

Flokkur 2:

  • Holland
  • England
  • Ítalía
  • Noregur

Flokkur 3:

  • Danmörk
  • Austurríki
  • Ísland
  • Pólland

Flokkur 4:

  • Slóvenía
  • Serbía
  • Úkraína
  • Írland

UEFA setur þær skorður á að Ísland getur ekki lent í riðli með bæði Noregi og Svíþjóð. Það er vegna vetraraðstæðna en spilað verður í mars, apríl og júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×