Skoðun

Plan sem er sett í fram­kvæmd í stað ára­langrar kyrr­stöðu

Ása Berglind Hjálmarsdóttir skrifar

Á síðustu áratugum hafa flokkar setið að völdum á Íslandi sem hafa haft það pólitíska markmið að gera íbúðir að fjárfestingavöru í stað þess að vera heimili fyrir fólk.

Það var gert með því að leggja niður félagslega íbúðakerfið um síðustu aldarmót. Það var gert með því að innleiða skattaglufur sem ýttu fjárfestum frekar í að setja peninganna sína í íbúðir en í verðbréf eða fjárfestingu í atvinnulífinu. Það var gert með aðgerðarleysi þegar ljóst var að fjársterkir einstaklingar og fjárfestingarfélög hófu stórfelld uppkaup á íbúðum.

Ekki til að búa í þeim, heldur til að leigja út til ferðamanna eða til að braska með og selja þegar verð hafði hækkað nægilega mikið.

Þetta bál var svo vökvað með grillolíu samsettri úr margháttuðum aðgerðum til að auka eftirspurn og samhliða hækka húsnæðisverð meira á Íslandi en í nokkru öðru OECD-landi á síðasta rúma áratug. Samhliða urðu hlutfallslega færri og færri íbúðir heimili fólks og fleiri fasteignir fyrst og síðast tölur í excel-skjali spákaupmanna.

Á meðan staða viðkvæmra hópa versnaði dag frá degi og fólk þurfti að borga sífellt stærra hlutfall af því sem sat eftir í veskinu um mánaðarmótin í húsnæðiskostnað, þá sátu síðustu ríkisstjórnir kyrrar. Grafkyrrar.

Nú er landinu blessunarlega stjórnað af ríkisstjórn sem nálgast hlutina á allt annan hátt.

Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttir horfist í augu við vandann, býr til plan og framkvæmir svo. Hún hefur nú kynnt húsnæðispakka sem er sá stærsti sem hefur verið ráðist í í áratugi með aðgerðum sem hafa raunveruleg áhrif.

Aðgerðir sem undirstrika að íbúðir eigi fyrst og síðast að vera heimili fólks, sem munu stórauka framboð á húsnæði til að mæta eftirspurn og beina stuðning til þeirra sem þurfa raunverulega á stuðning að halda.

Ríkisstjórnin er ekki hætt, heldur ætlar þvert á móti að koma með næsta húsnæðispakka strax eftir áramót.

Þannig vinnur nefnilega ríkisstjórn sem er til fyrir alla, ekki bara suma.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

3003

Elliði Vignisson skrifar

Sjá meira


×