Skoðun

Sofandaháttur Ís­lands í nýrri iðn­byltingu

Sigvaldi Einarsson skrifar

​Höfundur hefur á liðnum áratugum fylgst með meðgöngu gervigreindarinnar, upplifði fæðingu hennar fyrir þremur árum og í dag má segja að hún sé orðin unglingur. Hvað hún verður þegar hún verður stór er algjörlega undir okkur ,sem mannkyni, komið. Veljum við góða framtíð eða slæma.

​Ísland er að dragast aftur úr í þeirri gervigreindarbyltingu (GG) sem nú mótar heimsbúskapinn. Nýjustu gögn (WIPO Global Innovation Index) sýna að á meðan við erum í 24. sæti í nýsköpun heilt yfir, hröpum við niður í 45. sæti í „Þekkingar- og tækniútflutningi“. Á sama tíma eru Danmörk, Svíþjóð og Finnland í topp 10.

​Sökudólgurinn er aðgerðaleysi. Ábyrgðin liggur þvert á stjórnsýsluna, en endar á borði ríkistjórnarinnar. Þótt „Aðgerðaáætlun um gervigreind 2025–2027“ hafi verið kynnt , eru það orðin tóm. Sönnunin? Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2026 er ekki minnst einu orði á gervigreind og þar með er ekki einni krónu veitt í þennan mikilvægasta málaflokk samtímans.

​Þetta aðgerðaleysi er óskiljanlegt, því tækifærið blasir við. Vegna rekstrarerfiðleika í stóriðju, meðal annars stöðvunar á kísilverinu á Bakka og bilunar hjá Norðuráli, liggja nú ónotuð um 400 MW af grænni raforku. Til að setja þá tölu í samhengi, þá er það afl sem gæti knúið gervigreindarverksmiðju (hyperscale data factory) á við þær sem nú eru knúnar af nýrri kynslóð kjarnaofna. Hér eru komnir innviðir sem gætu haldið utan hundruði gervigreindar nýsköpunarteyma.

​Ég er sjálfur að undirbúa fyrsta íslenska gervigreindarlíkanið sem talar og skilur íslensku (áætlaður kostnaður 200 milljónir króna) og hef unnið að stofnun 200 milljarða króna nýsköpunarsjóðs sem gæti margfaldast með erlendri aðkomu.

​Hugmyndin er að virkja íslenska lífeyriskerfið. Óróleikinn á erlendum mörkuðum gagnvart „Magnificent 7“ er tilefni til að draga úr áhættu þar og færa fjárfestingar heim í samfélagslega nauðsynlega innviði. Þetta er valið sem við stöndum frammi fyrir: Að vera þjóð meðal þjóða eða falla alfarið í hlutverk hráefnisframleiðanda fyrir aðrar þjóðir.

​Hringlandahátturinn stafar ef til vill af ótta um að þetta sé bara bóla, endurtekning á E-bólunni 2001. En er sá ótti réttmætur?

​Bylting með bólum

​Svarið er ekki einfalt „já“ eða „nei“. Gögnin sýna að við erum að upplifa bæði samtímis: Ósvikna byltingu sem hýsir margar, staðbundnar bólur.

​Þeir sem afskrifa ástandið sem bólu horfa framhjá grundvallarmuninum á 2025 og 2001.

​Í fyrsta lagi er gervigreindarbylgjan drifin áfram af raunverulegri eftirspurn. Árið 2000 lögðu fyrirtæki þúsundir kílómetra af „dökkum ljósleiðara“ (dark fiber) sem lá ónotaður. Árið 2025 eru „engin dökk skjákort“ (no dark GPUs). Hver einasta örgjörvi sem framleiddur er fer samstundis í notkun og skapar tekjur.

​Í öðru lagi skila lykilfyrirtækin hagnaði. Árið 2000 voru verðmöt byggð á vonum. Árið 2025 skilar Nvidia, kjarnafyrirtæki byltingarinnar, raunverulegum, stjarnfræðilegum hagnaði (tilkynnti 26 milljarða dala tekjur á einum ársfjórðungi). Verðmat þess er hátt, en það hvílir á tekjum, ekki draumsýnum.

​Hvar er þá bólan?

​Bólan liggur í hinu risavaxna bili milli núverandi raunveruleika og yfirspenntra væntinga.

​Íhugið „Gen AI þversögnina“ (The Gen AI Paradox) sem McKinsey greindi á árinu: Næstum átta af hverjum tíu fyrirtækjum segjast nota gervigreind, en jafn hár hlutfall tilkynnir engin marktæk áhrif á rekstrarniðurstöðu.

​Fjárfestingin endurspeglar þetta bil. Heildarmarkaðurinn fyrir kynslóðargervigreind árið 2025 er um 59 milljarðar dala. Samt áætla tæknirisarnir fjórir – Microsoft, Meta, Alphabet og Amazon – að verja yfir 420 milljörðum dala í innviði á næsta ári.

​Þessi $420 milljarða fjárfesting er í raun risavaxið veðmál um að fyrirtæki muni finna leið til að láta þessa tækni skila hagnaði á botnlínunni. Og þar liggur vandinn. Geoffrey Hinton, Nóbelsverðlaunahafi og einn af „guðfeðrum“ gervigreindar, hefur bent á hinn óþægilega sannleika: Eina raunhæfa leiðin til að réttlæta þessa gríðarlegu fjárfestingu er að skipta út mannlegu vinnuafli.

​Viðvörunarbjöllur alþjóðastofnana endurspegla þetta. Bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) og Englandsbanki vöruðu við í október 2025 að markaðir stæðu frammi fyrir hættu á „skyndilegri leiðréttingu“.

​Aðalvörn IMF gegn kerfishruni hefur verið sú að þessi uppsveifla sé „ekki fjármögnuð með skuldum“. Þetta er hins vegar að breytast. Nýleg greining Citigroup frá hausti 2025 sýnir að innviðauppbyggingin er í auknum mæli farin að færast yfir á skuldsettar fjármagnanir. Þessi mikilvægi varnarmúr er því byrjaður að rofna.

​Að lokum er til staðar tæknileg bóla. Á sama tíma og hundruðum milljarða er varið í innviði fyrir núverandi tungumálalíkön (LLM), halda aðrir „guðfeður“ gervigreindar, eins og Yann LeCun, því fram að þessi tækni sé tæknileg endastöð, að hún sé orðin fullorðin. Hann telur að raunverulega stökkið krefjist „heimslíkana“ (World Models) sem skilja eðlisfræði, en ekki bara texta. Hér er tækifærið okkar, kannski er 16 ára stelpa í dag sem mun á næstu árum finna upp alveg nýja tækni til að ná Alhliða gervigreind (AGG). Til þess þarf að endurskipuleggja menntakerfið frá grunni.

​Lærdómurinn frá 2001

​Niðurstaðan er því tvíþætt. Við erum ekki að endurtaka E-bóluna 2001. Undirstaðan er raunveruleg, eftirspurnin er til staðar og hagnaðurinn er mælanlegur. Þetta er bylting. En innan hennar hafa myndast ósjálfbærar bólur.

​Hér er þó mikilvægasti lærdómurinn frá 2001: Bólan sem sprakk þurrkaði út fyrirtæki án raunhæfra viðskiptamódela, en hún drap ekki internetið. Þvert á móti, þegar froðan hvarf, blómstraði raunveruleg vefverslun. Fyrirtæki með traustan rekstur sem lifðu af, eins og Amazon og eBay, urðu burðarásar í nýju hagkerfi.

​Hið sama mun gilda um gervigreind. Leiðréttingin mun koma, en byltingin mun halda áfram.

​Spurningin fyrir Ísland er einföld: Ætlum við að láta ótta við staðbundnar bólur lama okkur á meðan 400 MW af grænni orku fara í súginn og keppinautar okkar á Norðurlöndum tryggja sér forystu?

​Það er kominn tími til að hætta aðgerðaleysinu. Við verðum að krefjast þess að gervigreind verði gerð að forgangsmáli í fjárlagaumræðunni 2026. Stjórnvöld verða að setja fram mælanleg markmið, stofna sérstakan „Orku+GG“ sjóð til að nýta þetta tækifæri og fjármagna landsátak í gervigreindarmenntun. Við þurfum að leggja grunninn að framtíðarhagkerfi landsins núna.

Höfundur er Gervigreindar- og framtíðarfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×