Handbolti

Sam­herji verður einn helsti bak­hjarl HSÍ

Sindri Sverrisson skrifar
Orri Freyr Þorkelsson fagnar hér í sigrinum gegn Þýskalandi í vináttulandsleik fyrr í þessum mánuði. Nafn Samherja bætist nú á landsliðsbúning Íslands.
Orri Freyr Þorkelsson fagnar hér í sigrinum gegn Þýskalandi í vináttulandsleik fyrr í þessum mánuði. Nafn Samherja bætist nú á landsliðsbúning Íslands. Getty/Harry Langer

Sjávarútvegsfyrirtækið Samherji verður einn helsti samstarfsaðili Handknattleikssambands Íslands næstu árin. Nafn fyrirtækisins verður því á keppnistreyjum íslensku landsliðanna.

HSÍ hefur verið í leit að fjárhagslegum bakhjarli, ekki síst eftir að samstarfinu við færsluhirðinn Rapyd lauk í vor.

Nú  hefur sambandið samið við Samherja og nær samningurinn til landsliða karla og kvenna ásamt yngri landsliðum, með áherslu á áframhaldandi uppbyggingu afreksstarfs og þróun handboltans á landsvísu.

Stelpurnar okkar verða því væntanlega í nýjum búningum með nafni Samherja á þegar þær mæta til leiks á HM síðar í þessum mánuði, sem og strákarnir okkar á EM í byrjun næsta árs. Rætt hefur verið um hættu á niðurskurði í starfsteymum landsliðanna vegna fjárskorts og má ætla að nýi samningurinn sé kærkominn fyrir HSÍ.

Forstjóri Samherja hf. er fyrrverandi handboltamaðurinn Baldvin Þorsteinsson sem fagnar því að geta stutt við íslenska handboltann:

„Íslenskur handbolti er órjúfanlegur hluti af þjóðarsálinni, rétt eins og fiskurinn. Við hjá Samherja erum afar stolt af því að verða einn af helstu samstarfsaðilum HSÍ og geta þannig stutt við íslensku landsliðin í handbolta,“ segir Baldvin í fréttatilkynningu frá HSÍ.

Jón Halldórsson formaður HSÍ, Baldvin Þorsteinsson forstjóri Samherja og Harpa Vífilsdóttir, stjórnarkona hjá HSÍHSÍ

HSÍ hefur eins og fyrr segir glímt við miklar fjárhagslegar áskoranir síðustu misseri.

„Við erum mjög ánægð með að fá Samherja til samstarfs sem einn af okkar lykilaðilum. Sterkir og áreiðanlegir samstarfsaðilar skipta miklu máli í þeirri uppbyggingu sem fram undan er, bæði þegar kemur að afreksumhverfi og áframhaldandi eflingu handboltans um land allt,“ segir Jón Halldórsson, formaður HSÍ, í fréttatilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×