Erlent

Efnaðir Ítalir sagðir hafa myrt fólk í Sarajevo sér til á­nægju

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ítalirnir eru sagðir hafa greitt hermönnum Radovan Karadžić fyrir að fá að skjóta á íbúa Sarajevo.
Ítalirnir eru sagðir hafa greitt hermönnum Radovan Karadžić fyrir að fá að skjóta á íbúa Sarajevo. Getty/Sygma/Mathieu Polak

Ákæruvaldið í Mílanó hefur hafið rannsókn á ásökunum um að einstaklingar frá Ítalíu hafi greitt hermönnum Radovan Karadžić, fyrrverandi leiðtoga Bosníu-Serba, fyrir að fá að koma og skjóta og drepa almenna borgara í Sarajevo.

Yfir 10.000 manns eru sagðir hafa verið drepnir í Sarajevo í árásum á árunum 1992 til 1996, meðal annars af leyniskyttum sem drápu börn, konur og menn af handahófi.

Ákvörðun saksóknara í Mílanó, undir forystu Alessandro Gobbi, um að hefja rannsókn málsins má rekja til gagna sem safnað var af rithöfundinum Ezio Gavazzeni, sem hefur unnið að því að safna sönnunargögnum varðandi ásakanirnar.

Þá byggir hún einnig á skýrslu Benjamina Karić, fyrrverandi borgarstjóra Sarajevo.

Ásakanirnar ganga út á að hópar Ítala og einstaklingar af öðrum þjóðernum hafi greitt hermönnum háar fjárhæðir til að vera fluttir í hæðirnar umhverfis Sarajevo, til að skjóta á almenna borgara sér til ánægju.

Fjallað var um þær í heimildarmyndinni Sarajevo Safari frá árinu 2022 en að sögn Gavazzeni var um að ræða marga Ítali, auk einstaklinga frá Þýskalandi, Frakklandi og Englandi.

„Það lágu engar pólitískar eða trúarlegar ástæður til grundvallar. Þetta voru efnaðir einstaklingar sem gerðu þetta sér til gamans og persónulegrar ánægju,“ hefur Guardian eftir Gavasseni.

Nokkrir einstaklingar sem hann hefur grunaða verða yfirheyrðir á næstunni.

Radovan Karadžić var fundinn sekur um þjóðarmorð og aðra glæpi gegn mannkyninu árið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×