Fótbolti

Fyrri úr­slita­leikurinn af tveimur

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði tvívegis í fyrri leiknum við Asera.
Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði tvívegis í fyrri leiknum við Asera.

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta spilar á morgun fyrri úrslitaleik sinn af tveimur í D-riðli í undankeppni HM 2026. Aserar eru í hefndarhug í Bakú.

Valur Páll Eiríksson skrifar frá Bakú

Það viðrar ágætlega í asersku höfuðborginni og ber blessunarlega lítið á vindi í vindaborginni miklu. Sólin skín í gegnum skýjabakkana og um 17 gráðu hiti.

Um einn og hálfur sólarhringur er þar til íslenska liðið mætir því aserska og þarf að sækja sigur á 11 þúsund manna heimavelli Neftci hér í borg.

Fyrri leikurinn var á meðal mest sannfærandi sigra sem landsliðið hefur sýnt í undankeppni, sér í lagi gegn liði sem ekki má telja til smáríkis. Strákarnir okkar gjörsigruðu Aserana í haust, 5-0, í Laugardalnum.

Fernando Santos, fyrrum Evrópumeistari með Portúgal, var snarlega sagt upp störfum vegna niðurlægingarinnar í Laugardal og það hefur verið allt annað að sjá til liðsins síðan, undir stjórn ástríðufulls bráðabirgðastjóra í Aykhan Abbasov.

Jafntefli Asera gegn Úkraínu kemur sér sérlega vel fyrir íslenska liðið en Aserarnir voru ekki langt frá því að ná aftur stigi gegn þeim í síðasta glugga, en töpuðu 2-1. Strákarnir okkar eru þremur stigum á eftir Úkraínu og geta jafnað liðið að stigum með sigri annað kvöld, tapi Úkraína fyrir Frökkum í París.

Síðasti leikur riðilsins er við Úkraínu í Póllandi á sunnudagskvöldið og strákarnir eru með umspilssætið í eigin höndum. Við erum með betri markatölu en Úkraína svo vinnist leikirnir tveir fer Ísland í umspilið (nema að Úkraína taki upp á því að vinna Frakka 3 eða 4-0).

Augun þurfa hins vegar að vera á boltanum – geyma alfarið Úkraínuleikinn – og einblína á Asera sem munu spila á allt öðru orkustigi en þeir gerðu á Íslandi.

Arnar Gunnlaugsson og Hákon Arnar Haraldsson munu sitja fyrir svörum á blaðamannafundi klukkan 13:15 í dag. Fundurinn verður sýndur beint á Vísi.

Teymi Sýnar mun fylgja okkar mönnum eftir hvert fótmál fram að leik sem hefst klukkan 17:00 á morgun sýndur beint, í opinni dagskrá, á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×