Innlent

Á leið í frí en hvergi nærri hættur

Atli Ísleifsson skrifar
Róbert Marshall tók við stöðu aðstoðarmanns Heiðu Bjargar Hilmisdóttur borgarstjóra í september síðastliðinn.
Róbert Marshall tók við stöðu aðstoðarmanns Heiðu Bjargar Hilmisdóttur borgarstjóra í september síðastliðinn. Vísir/Vilhelm

„Þetta er bara algert kjaftæði,“ segir Róbert Marshall, aðstoðarmaður Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, borgarstjóra Reykjavíkur, um það sem kemur fram í nýjasta þætti hlaðvarpsins Komið gott þar sem ýjað er að því að hann sé hættur sem aðstoðarmaður borgarstjóra.

24 stundir sögðu frá málinu í morgun þar sem fram kom að Róbert væri „sagður hættur“ sem aðstoðarmaður.

Róbert segist í samtali við fréttastofu vissulega vera á leið í mánaðarlangt, launalaust leyfi á laugardaginn, en að því sé fjarri að hann sé að hætta. Umrætt leyfi hafi legið fyrir áður en hann var ráðinn sem aðstoðarmaður Heiðu Bjargar í byrjun september síðastliðins.

Í máli þáttastjórnenda Komið gott – þeirra Ólafar Skaftadóttur og Kristínar Gunnarsdóttur – kemur fram að „ekki hafi sést tangur né tetur“ til Róberts í ráðhúsinu síðustu daga og að annar hafi verið fenginn til að fara með hlutverk aðstoðarmanns Heiðu Bjargar sem væri þá sá fjórði til að vera aðstoðarmaður borgarstjórans frá því að hún tók við embætti í febrúar.

Róbert segist lítið skilja í hvað þær séu að vísa í – hann sé í ráðhúsinu nær „öllum stundum“. Auk þess séu þær stöllur að vísa í verkefnastjóra nokkurn sem starfar í ráðhúsinu. 

„Það eru margir starfsmenn í ráðhúsinu sem vinna að hinum ýmsu málum. Ég er hins vegar enn og verð áfram aðstoðarmaður borgarstjóra fram í maí á næsta ári,“ segir Róbert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×