Fótbolti

Haaland verður á HM og langri bið Noregs lýkur

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Haaland og félagar fagna marki gegn Eistlandi í kvöld.
Erling Haaland og félagar fagna marki gegn Eistlandi í kvöld. Getty/Joem Pollex

Noregur verður með á HM í fótbolta næsta sumar, í fyrsta sinn frá því á síðustu öld, nema að Ítalir nái að kalla fram mesta kraftaverk fótboltasögunnar.

Erling Haaland og Alexander Sörloth skoruðu tvö mörk hvor í kvöld, þegar Noregur vann 4-1 sigur gegn Eistlandi og tók þannig lokaskrefið inn á HM, ef svo má segja.

Klippa: Noregur - Eistland 4-1

Ítalía getur enn fræðilega náð efsta sæti I-riðils af Noregi, með sigri gegn Moldóvu í kvöld og gegn Noregi á sunnudaginn, en þá þurfa Ítalir að vinna upp hvorki meira né minna en 19 marka forskot Noregs í markatölu. Það má því slá því föstu að Ítalía neyðist til að fara í umspilið um sæti á HM en að Noregur komist beint á mótið.

Noregur hefur ekki spilað á HM síðan á mótinu eftirminnilega árið 1998, þegar liðið vann frækinn sigur gegn Brasilíu, og síðasta stórmót norska liðsins var fyrir aldarfjórðungi, á EM 2000.

HM í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó næsta sumar verður því fyrsta stórmót stórstjarna á borð við Erling Haaland og Martin Ödegaard.

Aðdáendur norska liðsins þurftu að bíða allan fyrri hálfleikinn eftir fyrsta markinu í kvöld en það kom loks þegar Sörloth skoraði á 50. mínútu, og hann bætti við öðru aðeins tveimur mínútum síðar. Haaland skoraði svo tvö mörk skömmu síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×