Erlent

Lofts­lagskvíði geti ýtt undir fíkni­efna­neyslu

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Olíuborpallur og vindmyllur utan við Mön í Írlandshafi.
Olíuborpallur og vindmyllur utan við Mön í Írlandshafi. Getty

Loftslagskvíði vegna loftslagsbreytinga getur ýtt undir fíkniefnaneyslu fólks og haft neikvæð áhrif á andlega heilsu þeirra. Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var fyrir breska heilbrigðisráðuneytið á dögunum.

Breska blaðið Telegraph fjallar um skýrsluna en í henni stendur að Bretar eigi í hættu á að verða helteknir af „umhverfisótta,“ „umhverfisreiði,“ og „umhverfissorg.“

Andlegri heilsu þeirra gæti hrakað vegna mikils loftslagskvíða, og það gæti leitt til aukinnar fíkniefnaneyslu.

Loftslagsmeðvitund valdi sorg og ótta

Einn kafli í skýrslunni fjallar um andleg áföll sem fórnarlömb flóða, þurrka, og skógarelda verða fyrir. Í kaflanum er einnig fjallað um þá sem hafa „gríðarlega loftslagsmeðvitund“ og andleg áföll sem fólk verður fyrir sökum þess.

Sagt er að loftslagsmeðvitund geti valdið sorg, reiði, ótta, áhyggjum, svefnvandræðum, kvíðaköstum og angist. Í skýrslunni segir:

„Loftslagsbreytingar geta haft í för með sér aukin andleg veikindi sem leiðir af sér aukna fíkniefnaneyslu.“

Aktívismi geti dregið úr einkennum loftslagskvíða

Í skýrslunni er tekið fram að aktívismi og sá verknaður að „grípa til aðgerða í þágu loftslags“ geti dregið úr kvíða tengdum loftslagsmálum, og geti hjálpað fólki að finnast þau hafa meiri stjórn á málunum. 

Auk þess geti loftslagsaktívismi leitt til þess að fólk finni sér hóp sem fólki finnst það tilheyra og það geti dregið úr einmanaleika.

Í skýrslunni segir að með hækkandi hita muni tíðni andlegra veikinda einnig hækka, með tilheyrandi kostnaði fyrir velferðarkerfið í framtíðinni.

Prófessor Robin May, yfirmaður vísindarannsókna hjá heilbrigðisráðuneyti Bretlands, segir að skýrslan leiði það í ljós að það sé mikið hægt að gera til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga á andlega heilsu Breta.

„Við munum ráðast í skilvirkar aðgerðir á þessu sviði, safna saman kröftum okkar og gera það sem þarf.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×