Innlent

Vill á annað hundrað milljóna króna fyrir sólar­hrings­vakt

Árni Sæberg skrifar
Þórunn Sveinbjarnardóttir er forseti Alþingis.
Þórunn Sveinbjarnardóttir er forseti Alþingis. Vísir/Ívar Fannar

Forseti Alþingis hefur farið þess á leit við fjárlaganefnd að nefndin veiti embætti ríkislögreglustjóra fjárveitingu í samræmi við kostnaðarmat, 154 milljónir króna á ári, til að annast löggæslu á Alþingi allan sólarhringinn. Núverandi fjárveiting til embættisins nemur fjörutíu milljónum króna.

Í erindi Þórunnar Sveinbjarnardóttur, forseta Alþingis, til fjárlaganefndar segir að frá 1. apríl árið 2023 hafi embætti Ríkislögreglustjóra annast löggæslu á Alþingi. Gerður hafi verið þjónustusamningur milli skrifstofu Alþingis og RLS um þjónustuna og framkvæmd hennar, með gildistíma til 30. apríl 2026. Löggæslan sé í tengslum við þingfundi, nefndafundi og önnur tilefni þegar þannig stendur á. 

Vilja herða í ljósi ógna og áskorana

Embætti Ríkislögreglustjóri hafi nú lagt til, í ljósi aukinna ógna og áskorana, að á Alþingi verði öryggisgæsla allan sólarhringinn sem sinnt er af lögreglu. Þannig verði viðbragðstími styttri og betur hægt að takast á við aðsteðjandi ógnir hvenær sem er sólarhringsins. 

„Fyrir utan mikilvægi þess að tryggja öryggi þingmanna og starfsfólks þá er ekki síður mikilvægt að tryggja öryggi húsnæðis, menningarverðmæta, gagna, tækja og búnaðar.“ 

Stefna á að byrja 1. mars

Það sé mat skrifstofu Alþingis að rétt sé að fylgja ábendingum RLS, sem fari með öryggi æðstu stjórnar ríkisins. Kostnaðarmat RLS á sólarhringsviðveru sé 153,8 milljónir króna á ári, sem samsvari sex stöðum varðstjóra, en núverandi og tímabundin fjárveiting til embættisins sé tæpar 40 milljónir króna. Tryggja þurfi RLS varanlega fjárveitingu vegna kostnaðar sem hlýst af framangreindu. 

„Hér með er því óskað eftir því að fjárlaganefnd veiti embætti ríkislögreglustjóra fjárveitingu í samræmi við kostnaðarmat, 154 milljónir króna á ári, til að annast löggæslu á Alþingi allan sólarhringinn. Gert er ráð fyrir að nýtt fyrirkomulag verði innleitt frá og með 1. mars 2026 og er því óskað eftir 136,3 milljónum króna á því ári.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×