Skoðun

Kjarninn í vörninni fyrir hags­munum Ís­lands

Þórður Snær Júlíusson skrifar

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES), sem gekk í gildi árið 1994, er mikilvægasti viðskiptasamningur Íslands. Hann tryggir okkur aðgengi að innri markaði Evrópusambandsins (ESB) fyrir vörur og þjónustu og þannig aðgengi, án flestra hindrana, að um 450 milljónum viðskiptavinum. Þetta er gríðarlega mikilvægt, enda Ísland útflutningsþjóð. Helstu þjóðartekjur okkar koma til vegna sölu á sjávarafurðum, orku til stóriðju og ferðaþjónustu. Um 70 prósent alls vöruútflutnings okkar fer inn á EES-svæðið.

Það er því sannarlega ekki ofsögum sagt að mesta hagvaxtarskeið Íslandssögunnar byggi á því aðgengi að innri markaðnum sem EES-samningurinn tryggir okkur.

Á móti því að fá að selja okkar vörur og þjónustu í Evrópu þá skuldbatt Íslands sig, í gegnum samninginn, að aðlaga regluverk og lagaumhverfi hérlendis að gagnverki innri markaðar ESB. Sumum hefur þótt síðustu ríkisstjórnir, flestar skipaðar Sjálfstæðisflokki og Framsókn, hafa gengið ansi langt í þeim innleiðingum og hafa talað um gullhúðun í þeim efnum. Það þýðir á mannamáli að ef meiri fjármunir, geta og mannafli hefðu verið settir í hagsmunagæslu þá hefði Ísland ekki innleitt jafn íþyngjandi og víðtækt regluverk og raun ber vitni.

Skilyrðin sem voru sett fyrir viðskiptalegu aðgengi Íslands hafa þó líka fært okkur gríðarlega mikilvægar uppfærslur á samfélaginu. Í gegnum þau höfum við fengið stjórnsýslulög, upplýsingalög, mannréttindi, neytendavernd, neytendaúrbætur og, líkt og áður sagði, alveg ótrúleg viðskiptatækifæri.

Ekki tollabandalag

EES-samningurinn tryggir þar af leiðandi nokkurs konar aukaaðild að innri markaði Evrópu, án þess að við höfum sæti við borðið til að hafa bein áhrif á ákvarðanatöku innan hans. Samningurinn er hins vegar ekki tollabandalag. Það þýðir að Ísland, Noregur og Liechtenstein geta gert fríverslunarsamninga við önnur ríki um hvernig tollum sé háttað. Það hefur Ísland sannarlega nýtt sér og gert slíka samninga við tugi ríkja.

Grundvallaratriði í EES-samningnum er, líkt og í öllum samningum, að ríki virði skilmála hans. Það hefur Ísland ekki alltaf gert. Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á var til að mynda samþykkt frumvarp sem heimilaði ferðaskrifstofum að endurgreiða ferðamönnum með inneignarnótu í stað peningagreiðslu sem fullljóst var að færi í bága við tilskipun ESB. Tilgangurinn var, við afar einstakar aðstæður, að koma í veg fyrir að ferðaskrifstofur færu á hausinn. Með þessu var, vísvitandi og með galopin augu, verið að setja lög á Íslandi sem gengu gegn EES. Þetta hafði engar afleiðingar. Eftirlitsstofnun samningsins gerði ekkert annað en að beita dómgreind sinni á aðstæður og skilja þær.

Sömuleiðis hefur það gerst áður, árið 2002, að ESB hefur gripið til verndaraðgerða fyrir vörur sem framleiddar eru innan sambandsins. Þá snerust þær um stál og var vísað í heimild til að beita slíkum aðgerðum sem er að finna í EES-samningnum. Þá voru Ísland, Noregur og Liechtenstein ekki undanskilin með vísun í að EES-samningurinn væri ekki tollabandalag. Þetta vakti ekki mikla athygli á Íslandi, enda við ekki að framleiða stál.

ESB hefur tvívegis síðan þetta gerðist gripið til verndaraðgerða vegna innflutnings á stáli og þá undanskilið EES-ríkin. Það hefur verið gert með vísun í að efnahagsleg samlögun ESB við ríkin sé náin, en aðallega með vísun í að EES-ríkin framleiði einfaldlega lítið af stáli.

Ísland og Noregur ekki vandamálið

Þær deilur sem nú eiga sér stað snúast um að framkvæmdastjórn ESB hefur ákveðið að grípa til verndarráðstafana til að verja framleiðslu á járnblendi innan sambandsins. Það er gert vegna þess að fyrirtæki í þeim geira í Kína, Kasakstan og á Indlandi hafa verið að offramleiða vöruna og selja hana á lágu verði inn á markaði. Ákveðið hefur verið að þessar ráðstafanir nái líka yfir EES-ríkin, og þar með Ísland. Allt er þetta afleiðing af breyttum heimi þar sem tollastríð geisa.

Eitt fyrirtæki með starfsemi á Íslandi, Elkem á Grundartanga, framleiðir járnblendi. Elkem selur líka vörur á Asíu- og Ameríkumarkað og er því alls ekki bundið einvörðungu við það að selja til Evrópu.

Það liggur fyrir, meðal annars úr hendi samtaka framleiðenda járnblendis í Evrópu, að Ísland og Noregur séu ekki þeir framleiðendur sem séu að þrýsta niður verði á þessum markaði. Þau samtök eru raunar líka þeirrar skoðunar að Ísland og Noregur eigi að vera undanskilin verndarráðstöfunum, enda ekki vandamálið sem við er að etja.

Markmið aðgerðanna er að hækka verð á Evrópumarkaði og takist það mun aðgerðin líka gagnast okkar fyrirtæki sem mun áfram flytja vörur inn á þann markað. Það mun fá meira fyrir vöruna sína.

Feikilega öflug hagsmunagæsla

Í næstum ár hefur verið rekin feikilega öflug hagsmunagæsla, í nánu samstarfi við Noreg og alla haghafa hérlendis, til að reyna að koma í veg fyrir að þessi niðurstaða yrði að veruleika.

Sú hagsmunagæsla sem rekin hefur verið af hendi ríkisstjórnar Íslands, sérstaklega utanríkisráðherra og forsætisráðherra, hefur verið víðfeðm. Markmið hennar hefur verið tvíþætt. Annars vegar að berjast eins og ljón fyrir undanþágu frá verndarráðstöfunum og hins vegar, ef það myndi ekki takast, að lágmarka áhrif á það fyrirtæki sem framleiðir járnblendi á Íslandi.

Fyrra markmiðið náðist ekki, þrátt fyrir að hagsmunagæslan hafi án nokkurs vafa hrist verulega upp í valdastofnunum Evrópu. Það sést sýnilega með því að atkvæðagreiðslu um tillögu framkvæmdastjórnar ESB var ítrekað frestað, sem er afar óvenjulegt.

Hið síðara mun þó nást, að minnsta kosti að mestu. Þrátt fyrir verndarráðstafanirnar verður ákvarðað um tollfrjálsan innflutningskvóta á járnblendi sem samsvarar um 75 prósentum af innflutningsmagni Íslands á innri markaðinn á síðustu árum. Auk þess hefur verið bætt inn í aðgerðirnar texta sem segir að það eigi að meta áhrif þeirra á þriggja mánaða fresti í samráði við Íslendinga og Norðmenn. Þetta kallaði Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem, varnarsigur í samtali við Vísi og sagði á sama stað að íslensk og norsk stjórnvöld hafi gert allt sem í þeirra valdi stóð til þess að verja iðnaðinn.

Brotið gegn grundvallaratriðum

Þrátt fyrir ofangreint þá eru það mikil vonbrigði að nægilega mörg ríki ESB hafi samþykkt að verndarráðstafanirnar nái líka yfir Ísland. Líkt og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra sagði hátt og skýrt við fjölmiðla að það væri „verið að brjóta gegn grundvallaratriðum EES-samningsins“. Það sé óásættanlegt fyrir Elkem að þurfa að fylgja íþyngjandi regluverki ESB en verða svo fyrir því að aðgangur þeirra að markaðnum sé takmarkaður með þessum hætti.

Íslensk stjórnvöld ætla alls ekki að taka þessari niðurstöðu þegjandi. Málið verður tekið upp í sameiginlegu EES-nefndinni, á fundum og í samtölum við ráðamenn innan ESN og aðildarríkja þeirra, og á fundi EES-ráðsins síðar í vikunni sem utanríkisráðherra mun sitja. Þá hefur staðgengill sendiherra ESB verið kallaður á fund í utanríkisráðuneytinu og Ísland hefur ákveðið að fresta undirritun á samkomulagi um samstarf á sviði öryggis- og varnarmála sem fyrirhuguð var á næstu dögum.

Það liggur skýrt fyrir að málið snýst ekki einungis um þessar verndarráðstafanir, heldur um grundvallaratriði. Ef Ísland á að taka upp regluverk þá verður Ísland að njóta ávinningsins. Fyrir þessu verður barist áfram og sleitulaust.

Að mála skrattann á vegginn

Hluti stjórnarandstöðunnar reyndi samstundis, og fyrirsjáanlega, að nýta þessa stöðu á allt annan hátt. Í stað þess að fylkja sér á bakvið það að verja mikilvægasta viðskiptasamning þjóðarinnar, eina af undirstöðum þeirrar gríðarlegu lífsgæðasóknar sem átt hefur sér stað hérlendis síðustu áratugi, fór Miðflokkurinn, sem byggir tilveru sína á einangrunarhyggju, hræðslupólitík og andstöðu við alþjóðasamstarf, að reyna að slá pólitískar keilur. Það ætlar hluti Sjálfstæðisflokksins að gera líka, þótt aðrir og skynsamari angar hans forðist slíka freistingu. Það mátti skilja suma þannig að best færi á því að setja EES-samninginn í uppnám.

Þessi hópur fór að teikna upp myndir sem eiga sér ekki stoð í raunveruleika og nýta stöðuna til að reyna að valda skaða. Það gerði hann meðal annars með því að reyna að tengja þessa ákvörðun við samþykkt á Bókun 35, formsatriði sem Miðflokkurinn hefur árum saman þyrlað upp í dómsdagsþvælu til að búa sér til pólitískt vopn. Eða við ákvörðun um hvort Ísland eigi að fara í viðræður um að ganga í Evrópusambandið, sem er ákvörðun sem íslensk þjóð á skilið að fá að taka sjálf og mun fá að taka fyrir árslok 2027.

Það er erfitt að taka stjórnmálafólk sem fer fram með svona hætti, í málum þar sem undir eru hagsmunir sem hafa gríðarleg áhrif á getu Íslands til áframhaldandi lífskjarasóknar, alvarlega.

Tölum einum rómi

Í eðli sínu á varðstaða um íslenska hagsmuni vegna verndarráðstafana ekki að vera flokkspólitískt mál. Það eiga allir flokkar sem eiga sæti á Alþingi að geta staðið saman um að tala einum rómi gegn þeirri ákvörðun sem tekin var í gær. Og verja um leið þá gríðarlegu hagsmuni sem felast í EES-samningnum.

Það að reyna að þvæla því máli yfir á önnur og óskyld svið gerir ekkert gagn, heldur veldur skaða. Málinu er ekki lokið og það verður unnið að því að vinda ofan af ákvörðuninni með öllum tiltækum leiðum.

Í þeirri vegferð verða einungis einir hagsmunir í stafni: hagsmunir Íslands.

Höfundur er framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar




Skoðun

Skoðun

Jóla­kötturinn, ert það þú?

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ytra mat á ís

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jenný Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×