Upp­gjörið: Fortuna - Breiða­blik 2-4 (3-4) | Ó­trú­leg endur­koma Blika

Valur Páll Eiríksson skrifar
Birta Georgsdóttir og stöllur hennar eru komnar áfram í Evrópubikarnum eftir ótrúlegan leik í Danmörku í kvöld.
Birta Georgsdóttir og stöllur hennar eru komnar áfram í Evrópubikarnum eftir ótrúlegan leik í Danmörku í kvöld. vísir/anton

Breiðablik vann magnaðan 4-2 sigur á Fortuna Hjörring í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópubikars kvenna í fótbolta ytra í kvöld eftir framlengdan leik. Blikakonur lentu 3-0 undir í einvíginu en unnu það samanlagt 4-3.

Blikakonur höfðu verið slakari aðilinn í fyrri leik liðanna hér heima og töluðu um ryð eftir leik, enda langt síðan að tímabilinu lauk hér heima.

Það var enn smá ryð í kvöld. Fjölþjóðlegt Fortuna-lið, með leikmenn frá sjö mismunandi löndum í byrjunarliði, var sterkara í byrjun leiks. Raunveruleg færi létu á sér standa þar sem Blikavörnin var sterk og varðist vel fjölda fyrirgjafa.

Pressa Blika var hins vegar gjarnan auðveldlega leyst af léttleikandi dönsku liði sem spilaði stuttar sendingar og einnar snertingar fótbolta.

Gjöf frá Herdísi

Þær Birta Georgsdóttir og Sammy Smith fengu sitthvort upplagða marktækifærið um miðjan fyrri hálfleik en tókst hvorugri að koma boltanum á markið.

Blikar náðu betri tökum á leiknum eftir því sem leið á en á 32. mínútu gaf markvörðurinn Herdís Halla Guðbjartsdóttir gestunum hreinlega mark. Nikoline Nielsen vann af henni boltann á markteig og lagði í netið.

Hjörring fékk nokkur fín færi í kjölfarið þar sem nígeríski framherjinn Joy Ogochuckwu var hættulegust en fann ekki netmöskvana.

Blikakonur voru að einhverju leyti heppnar að munurinn var aðeins eitt mark í hálfleik en áðurnefnd Joy skoraði úr sínu sjöunda skoti í leiknum strax í byrjun þess síðari. Hún afgreiddi boltann þá vel, fast skot alveg út við stöng, eftir að hafa verið send í gegn. Staðan 2-0 og 3-0 alls.

Heiðdís Lillýardóttir jafnaði hins vegar strax í næstu sókn með laglegu langskoti af um 25 metra færi og staðan 2-1. Blikakonur vöknuðu við það og áttu svo frábæran kafla þar sem þær lágu á Dönunum.

Liðsfundur og danskt stress

Karitas Tómasdóttir átti frábæra fyrirgjöf á 65. mínútu sem fann höfuð Sammy sem skallaði boltann í netið. Staðan skyndilega 2-2 og þær dönsku skildu hvorki upp né niður í stöðunni. Þær héldu liðsfund úti á velli eftir markið og reyndu að finna lausnir gegn Blikaliði sem var skyndilega miklu betri aðilinn.

Færin létu á sér standa eftir það. Þær dönsku skiptu sóknarmönnum út fyrir varnarsinnaðri leikmenn og virtist ætla að ganga að halda þetta út. Svo var hins vegar ekki.

Aukaspyrna Sammy á sjöundu mínútu uppbótartíma fór af varnarmanni og inn. Staðan 3-2 fyrir Breiðablik og 3-3 samanlagt – eftir að hafa verið 3-0 undir í einvíginu.

Síðasta spark leiksins var danskt í eigið mark og framlengja þurfti leikinn.

Ungir Blikar kláruðu dæmið

Danir voru meira með boltann gegn unglegu Blikaliði í framlengingu en Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir, Líf Joostdóttir van Bemmel, Edith Kristín Kristjánsdóttir og Lilja Þórdís Guðjónsdóttir höfðu allar komið inn á seint í leiknum fyrir reynslumeiri leikmenn.

Markalaust var eftir fyrri hálfleik framlengingar en strax í byrjun þess síðari fell boltinn fyrir Edith Kristínu sem var hin rólegasta, lagði boltann á vinstri fótinn og negldi honum í nærhornið.

Við tóku sérlega stressandi lokamínútur en Herdís Halla varði allt sem kom að marki og varnarmenn skiptust á að kasta sér fyrir skot.

Hetjuleg barátta breytti 0-3 stöðu í 4-3 samanlagðan sigur og Breiðablik fer áfram í 8-liða úrslit keppninnar eftir hreint ótrúlegan leik í Hjörring.

Hvað næst?

Nik Chamberlain var að stýra Blikum í síðasta sinn og flytur á næstu dögum til Svíþjóðar og tekur við liði Kristianstad. Ian Jeffs mun taka við stjórnartaumunum í Kópavogi.

Fjölmargir leikmenn Breiðabliks eru að klára samning sinn við félagið, þar á meðal stór hluti byrjunarliðsins. Þar má til dæmis nefna Sammy Smith.

Það gæti því verið að einhverjar hafi verið að spila sinn síðasta leik fyrir félagið í bili en Nik sagði í viðtali við Vísi á dögunum að hann hygðist taka einhverjar Blikakonur með sér til Svíþjóðar.

Áhugavert verður að sjá hvernig Blikaliðið verður mannað þegar það mætir Häcken frá Svíþjóð í 8-liða úrslitum keppninnar í febrúar næstkomandi.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira