Fótbolti

Setti styttu af „hataðasta manni Sví­þjóðar“ fyrir utan þjóðar­leik­vanginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Styttan af Jon Dahl Tomasson fyrir utan þjóðarleikvang Svía.
Styttan af Jon Dahl Tomasson fyrir utan þjóðarleikvang Svía.

Fáir Svíar hugsa hlýtt til Jons Dahl Tomasson eftir afleitt gengi fótboltalandsliðsins undir hans stjórn. Samfélagsmiðlastjarna ákvað hins vegar að heiðra þennan „hataðasta mann Svíþjóðar“ eins og hún orðaði það.

Svíþjóð tók á móti Slóveníu í lokaleik sínum í undankeppni HM 2026 í fyrradag. Leikurinn fór fram á þjóðarleikvanginum Strawberry Arena í Stokkhólmi og endaði með 1-1 jafntefli.

Þeim sem mættu á leikinn brá í brún þegar þeir sáu styttu af Tomasson fyrir utan leikvanginn. Um var að ræða uppátæki samfélagsmiðlastjörnunnar Fabians Svorono.

„Miðað við það sem ég hef lesið virðist hann ekki hafa fengið mörg tækifæri svo hann á kannski skilið að fá smá ást. Sömuleiðis var þetta skemmtileg tilraun til að sjá hvernig fólk myndi bregðast við þegar maður reisir styttu af manni sem fólki líkar ekkert sérstaklega vel við,“ sagði Svorono.

Hann taldi líklegt að styttan yrði fyrir skemmdarverkum en svo reyndist ekki vera og margir tóku meira að segja myndir af sér við hana.

Svorono gaf sig fram og gekkst við því að hafa sett styttuna af Tomasson fyrir framan Strawberry Arena. Honum fannst allt eins líklegt að hann yrði handtekinn en honum til undrunar höfðu lögreglumenn gaman að uppátækinu. Þeir létu Svorono þó fjarlægja styttuna sem stendur núna á skrifstofu hans.

Hinn danski Tomasson tók við sænska landsliðinu í mars 2024. Hann stýrði því í átján leikjum en aðeins helmingur þeirra vannst og allt gekk á afturfótunum hjá Svíum í undankeppni HM. Tomasson var látinn taka pokann sinn í síðasta mánuði og við starfi hans tók Graham Potter, fyrrverandi knattspyrnustjóri Chelsea.

Svíþjóð endaði í fjórða og neðsta sæti síns riðils í undankeppni HM og vann ekki leik. Liðið verður hins vegar í pottinum þegar dregið verður í umspil um sæti á HM í dag sökum árangurs þess í Þjóðadeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×