Erlent

Breski rað­nauðgarinn fær enn einn lífstíðardóminn

Samúel Karl Ólason skrifar
David Carrick, einn alræmdasti kynferðisbrotamaður Bretlands, starfaði um árabil hjá lögreglunni og er sagður hafa notað sér það við brot sín.
David Carrick, einn alræmdasti kynferðisbrotamaður Bretlands, starfaði um árabil hjá lögreglunni og er sagður hafa notað sér það við brot sín. EPA/ANDY RAIN

David Carrick, breski raðnauðgarinn og fyrrverandi lögreglumaðurinn, hefur fengið enn einn lífstíðardóminn. Að þessu sinni var hann dæmdur fyrir að brjóta á tólf ára stúlku og fyrrverandi kærustu. Hinn fimmtugi síbrotamaður fékk í kjölfarið sinn 37. lífstíðardóm en hann hefur áður verið dæmdur fyrir að brjóta á tólf konum yfir sautján ára tímabil.

Carrick var dæmdur á nýjan leik í Lundúnum í morgun. Það var eftir réttarhöld gegn honum fyrir að brjóta ítrekað á tólf ára stúlku árin 1989 og 1990 og fyrir að nauðga fyrrverandi kærustu sinni rúmlega tuttugu árum síðar.

Samkvæmt tilkynningu frá saksóknurum stigu báðanar konurnar fram eftir að Carrick var dæmdur árið 2023.

Þá var hann dæmdur í að minnsta kosti 32 ára fangelsi. Þau réttarhöld reiddu Breta til mikillar reiði þar sem í ljós kom að mörg tækifæri til að stöðva ítrekuð brot hans í gegnum árin voru misnotuð en hann starfaði lengi sem lögregluþjónn, eða frá árinu 2001.

Yfirmenn hans í lögreglunni voru sagðir hafa fengið upplýsingar um nokkur meint brot hans fram til ársins 2021 en aldrei viðhafst neitt vegna þeirra ábendinga.

Hann játaði á sig, í tveimur mismunandi málaferlum, að hafa framið 71 kynferðisbrot, þar af 48 nauðganir, á tólf konum yfir sautján ára tímabil, samkvæmt frétt Sky News.

Carrick hefur starfað innan lífvarðarsveitar lögreglunnar, sem vörður og lífvörður. Saksóknarar sökuðu hann um að nýta stöðu sína sem lögregluþjónn gegn konum sem hann kynntist á internetinu og þvinga þær til samræðis og til þess að þaga um nauðganirnar.

Wayne Couzens, sem játaði árið 2021 að hafa nauðgað og myrt Söruh Everard, starfaði í sömu deild lögreglunnar.

Sjá einnig: Morðingi Söruh Everard dæmdur í lífstíðarfangelsi

Carrick mun hafa læst konur inn í skáp undir stiga á heimili hans í margar klukkustundir og þvingað þær til að þrífa heimili hans naktar. Hann barði eina konu með belti, pissaði þá nokkur af fórnarlömbum sínum og réð því hvenær þær fengu að borða og sofa.

Konurnar kallaði hann einnig feitar og latar og stjórnaði þeim með harðri hendi. Hann einangraði þær frá fjölskyldu þeirra og vinum og bannaði þeim að tala við aðra menn eða jafnvel börn þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×