Körfubolti

Ætla að keyra upp hraðann og koma sér á toppinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Pétur Rúnar Birgisson segir hans menn í Tindastóli ákveðna í því að sækja sigur í kvöld.
Pétur Rúnar Birgisson segir hans menn í Tindastóli ákveðna í því að sækja sigur í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

„Það er alltaf gaman að spila svona mikilvæga leiki innan tímabilsins. Þeir eru búnir að vinna fyrstu sjö en við sex og tapað einum. Það er gaman að spila um fyrsta sætið,“ segir Pétur Rúnar Birgisson, leikmaður Tindastóls, sem sækir Grindavík heim í Bónus deild karla í körfubolta í kvöld.

Líkt og hann nefnir spila liðin um efsta sæti deildarinnar og þau hafa verið bestu lið deildarinnar það sem af er vetri.

„Það eru bara sjö leikir búnir en auðvitað viljum við vera efstir en erum meira að leitast eftir því að vera efstir þegar eru búnar 22 umferðir. Við hlökkum mikið til að fara til Grindavíkur og taka þennan leik,“ segir Pétur í samtali við Vísi.

„Þeir hafa sýnt að þeir eru mjög vel mannaðir og eru að gera vel, bæði varnarlega og sóknarlega. Við þurfum að finna leiðir til að brjóta þá á bak aftur,“ bætir hann við.

DeAndre Kane, lykilmaður Grindavíkur, verður í leikbanni í kvöld eftir hegðun hans í leik við ÍR í síðustu viku. Ólafur Ólafsson spilaði þá lítið í þeim leik og spurning með meiðslastöðu hans.

Er þetta þá ekki dauðafæri fyrir Stólana?

„Jú klárlega. Það er leiðinlegra að þeir séu ekki með fullt lið. Við stefnum alltaf á sigur, sama hverjir eru á móti okkur eða með okkur. Það er bara gaman að þetta sé um fyrsta sætið þegar er liðið aðeins inn í mótið. Við gerum bara okkar sama hvort Óli Óla er með eða ekki,“ segir Pétur.

„Við þurfum að halda áfram að gera okkar. Við höfum gert vel varnarlega eins og þeir. Við viljum spila hratt en þeir vilja líklega, sérstaklega varnarlega, reyna að róa leikinn. Við þurfum að frákasta vel og keyra í bakið á þeim,“ bætir hann við.

Leikur Grindavíkur og Tindastóls verður sýndur beint á Sýn Sport Ísland 2 í kvöld.

Skiptiborðið er á sínum stað á Sýn Sport Ísland þar sem öllum fjórum leikjum kvöldsins verður fylgt eftir samtímis í beinni útsendingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×