Lífið

„Sjónvarpssonur“ John Travolta látinn

Lovísa Arnardóttir skrifar
Spencer á frumsýningu myndarinnar King Cobra árið 2016.
Spencer á frumsýningu myndarinnar King Cobra árið 2016. Vísir/Getty

Kanadíski leikarinn Spencer Lofranco er látinn, 33 ára að aldri. Lofranco var þekktastur fyrir að leika son John Travolta í kvikmyndinni Gotti. Hann lést 18. nóvember í Bresku Kólumbíu í Kanada. Dánarorsök liggur ekki fyrir og er andlát hans til rannsóknar samkvæmt erlendum miðlum.

Í kvikmyndinni Gotti lék Lofranco á móti John Travolta og Kelly Preston. Myndin fjallaði um föður sem var í mafíunni og son sem vildi ekki verða mafíósi eins og pabbi sinn. TMZ greindi fyrst frá andlátinu.

Í frétt Hello um andlát hans segir að bróðir hans, Santino Lofranco, hafi minnst hans á samfélagsmiðlum um leið og hann deildi hörmulegu fréttunum með aðdáendum Spencer.

„Til goðsagnarinnar @roccowinning. Bróðir minn. Þú lifðir lífi sem sumir gátu aðeins látið sig dreyma um. Þú breyttir lífi fólks og nú ertu hjá Guði. Ég mun alltaf elska þig og sakna þín,“ sagði hann í færslunni og birti fjölda mynda af þeim bræðrum með.

Í frétt Hello segir að Spencer hafi sjálfur birt sína síðustu færslu á samfélagsmiðlum rúmri viku áður en hann lést, 11. nóvember.

Lofranco lék einnig í kvikmyndunum King Cobra með Christian Slater, James Franco, Aliciu Silverstone og Molly Ringwald, At Middleton, Unbroken, Jamesy Boy og Home.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.