Skoðun

Að fyrir­gefa sjálfum sér

Sigurður Árni Reynisson skrifar

Ég sit hérna heima hjá mér og er að hugsa um fyrirgefninguna, hvernig maður fyrirgefur sjálfum sér eða öðrum. Það er skrýtið að eitthvað sem hljómar svona einfalt, eitt orð, ein hugmynd geti verið svona flókin og sársaukafull. Stundum finnst mér talað um fyrirgefninguna á svo léttvægan hátt eða á þann hátt að hún virðist skiljanleg öllum öðrum nema mér, en ég rembist við og reyni að ráða í eitthvað sem virðist óskrifað, ósagt og óútskýrt. Ég hef upplifað að fara svo djúpt niður að það var eins og ég hefði farið niður til helvítis og hitt dekkstu hlið sjálfsins og á einhvern óskiljanlegan hátt komst ég þaðan lifandi til baka. En það er enginn til þess að leiðbeina manni að þegar maður kemur út úr myrkrinu, skelfingu lostinn og skjálfandi því þá bíður manns allt annað verkefni, þ.e. að horfast í augu við sjálfan sig og reyna að lifa með því sem eftir stendur. Þessi innri ferli og það sem maður þarf að fara í gegnum til að fyrirgefa sjálfum sér virðast oft óyfirstíganleg.

Fyrirgefning virðist oft eins og eitthvað mjúkt og hlýtt, eins og vindur sem strýkur kinn. Fólk talar oft um fyrirgefninguna og lýsir henni eins og að sleppa tökunum og finna ljósið. En þessi orð eru aðeins umbúðirnar utan um eitthvað miklu dýpra. Því raunveruleg fyrirgefning birtist ekki sem ljómi, hún kemur fyrst sem myrkur. Hún er skref niður á stað sem aðeins hjartað þekkir, stað þar sem enginn er við hliðina á manni nema eigið hugrekki.

Hún er óvissan sem situr við rúmstokkinn hvíslandi spurningunni sem enginn vill heyra: „er Þetta ekki ófyrirgefanlegt?“. Hún leiðir þig aftur á sama stað í sögunni þinni, eins og aldan sem sækir stöðugt að ströndinni þar til þú getur ekki annað en staðið kyrr og horfst í augu við sjálfan þig. Hún er stundin þegar allt verður kyrrt og þú finnur að þögnin er ekki friður, heldur spegill sem snýr að sjálfum þér. Hún kemur klukkan þrjú um nótt þegar þú situr vakandi og finnur ekki hvort þú ert að brotna eða hvort samviskan sé að vakna. Hún er myrkrið sem krefst þess að þú drjúpir höfði, ekki sem merki um uppgjöf heldur til að horfa loksins á sannleikann innra með þér.

Samt er þetta ferðalag falið inn í þér eins og fræ undir moldinni. Enginn sér það og enginn getur gengið þessa leið með þér. Þú ert einn á stígnum og það er einmitt í þessari einveru þegar hjartað byrjar að læra hvað fyrirgefning raunverulega er. Að fyrirgefa öðrum er flókið, en að fyrirgefa sjálfum sér er margfalt erfiðara. Það krefst þess að þú sért bæði sá sem brást og sá sem þarf að sýna mildi og miskunn. Í því felst ákveðin tvíhyggja þar sem þú þarft að horfa á þig utanfrá og innanfrá samtímis, horfa á manneskjuna sem gerði mistökin og manneskjuna sem ber þau nú. Það er eins og að standa á milli tveggja spegla og sjá endalausa endurtekningu mynsturs sem þú vilt gleyma en getur það ekki. Það er engin leið framhjá sársaukanum, hann er fyrsti kennarinn og oft sá sem talar hæst.

Samt er fyrirgefning meira en sársauki. Ef maður stoppar nógu lengi í þessu óþægilega rými, þá byrjar eitthvað að breytast hægt og rólega, eins og þegar birtan mjakast inn undir gluggatjöldin áður en maður gerir sér grein fyrir því að dagur sé að hefjast. Fyrirgefning er ekki það að samþykkja allt sem gerðist eða játa að allt hafi verið í lagi. Hún snýst ekki um að afsaka sig eða gera lítið úr raunverulegum skaða. Hún er ekki að reyna að læra að elska lífið meðan maður veltir öllu upp í höfðinu í ringulreið. Fyrirgefning er að viðurkenna mannlegan breyskleika, að samþykkja að þú ert mannvera gerð úr ást, mistökum, ótta og von og að þú eigir rétt á því að halda áfram að lifa.

Kannski er það einmitt þetta sem gerir fyrirgefningu svo torfæra þar sem hún krefst bæði hugrekkis og hógværðar. Hún krefst þess að þú sért nógur til að mæta sjálfum þér og um leið nógu auðmjúkur til að viðurkenna að þú hafir haft rangt fyrir þér. Hún krefst þess að þú sért nógu sterkur til að viðurkenna veikleika. Það eru fáir staðir þar sem þversagnir mannlífsins birtast jafn skýrt og í ferlinu að fyrirgefa sjálfum sér.

Margir halda að fyrirgefning sé ákvörðun sem maður tekur einu sinni. En mín reynsla er að í raun er hún röð smárra ákvarðana sem eru endurteknar þangað til þær hætta að særa. Hún er eins og að bera vatn í lófanum, fyrst rennur það allt í gegn, svo heldur eitthvað eftir og að lokum finnur maður að það sem maður var að reyna að fylla, er fullt. Ekki vegna þess að maður náði öllu vatninu í einu, heldur vegna þess að maður gafst ekki upp. Þannig virkar þetta. Fyrirgefning er ekki atburður, hún er ferli sem gerist í litlum brotum sem hverfa og birtast á ný. Sumir dagar eru þungir og myrkir og það virðist ómögulegt að komast áfram. Aðrir dagar eru léttari og maður upplifir sig hafa náð tökum á einhverju. Þetta er ekki samfelld lína, þetta er sveiflukennd hreyfing, eins og óreglulegur hjartsláttur.

Fyrirgefningin er ekki aðeins gjöf til þess sem rangt gerði, hún er fyrst og fremst gjöf til sjálfsins. Því á meðan sekt, skömm og átök við sjálfan sig halda manni niðri þá er fyrirgefningin það sem gefur manni færi á að standa upp aftur. Hún opnar rými þar sem þú mátt vera manneskja sem gerði mistök, en er samt þess verðug að lifa lífi sínu með reisn. Hún er leið út úr helvíti sem þú skapaðir sjálfur og leið inn í rými þar sem þú mátt anda aftur.

Kannski er fyrirgefningin ekki eitthvað sem maður „nær“. Kannski er hún einfaldlega það að halda áfram að mæta sjálfum sér með meira mildi í dag en í gær. Ef svo er, þá er hún ekki gullmolinn í lok göngunnar, heldur steinarnir sem þú stígur á til að komast áfram veginn sem þú sérð ekki. Hún er það sem heldur þér gangandi.

Ef maður þorir að mæta myrkrinu innra með sér, horfa á djöfulinn í eigin formi og lifa af, þá er líka von um að maður geti einhvern tímann verið mýkri við sjálfan sig. Kannski er þetta hjarta fyrirgefningar, ekki að afneita sárinu, ekki að verja það sem fór úrskeiðis, heldur að stíga aftur upp í ljósið eftir að hafa sokkið niður í svartasta hafið.

Og þegar maður tekur fyrsta andardráttinn á yfirborðinu eftir að hafa dvalið lengi í djúpinu, rís spurning sem ekki er sögð með orðum heldur þrýstist fram úr hjartanu sjálfu. Var það ég sem synti upp eða var ég borinn af straumi sem lifir handan míns eigin vilja?

Mín reynsla er að fyrirgefning er ekki svar, heldur hurð. Hún opnast þegar vilji minn dugir ekki lengur og æðri máttur tekur við. Ekki sem hugmynd, heldur sem eitthvað sem gerist. Eins og mér hafi verið lyft upp þegar ég hafði ekki afl til að standa sjálfur. Á því augnabliki fann ég hvernig tómið í brjósti mínu, tómið sem ég hafði lokað inni og varið í mörg ár, fór að fyllast af ljósi sem kom ekki frá mér, ljósi sem ég stjórnaði ekki, en lýsti mig upp að innan.

Ég kann ekki að útskýra þennan æðri mátt. Ég reyni það ekki lengur. Ég veit bara að hann birtist þegar ég sleppi tökunum og ég hætti að halda mér gangandi á eigin vilja. Á hverjum morgni þegar ég vakna finn ég þakklætið í hjarta mínu, eins og mjúka bylgju sem minnir mig á að ég var ekki einn í djúpinu.

Höfundur er mannvinur og kennari




Skoðun

Sjá meira


×