Fótbolti

Snýr aftur á æfingar eftir 100 daga í burtu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Orri Steinn hefur átt erfitt haust en vonast er til að loks sjái fyrir endann á erfiðum lærameiðslum.
Orri Steinn hefur átt erfitt haust en vonast er til að loks sjái fyrir endann á erfiðum lærameiðslum. Getty/Cesar Ortiz Gonzalez

Landsliðsfyrirliðinn Orri Steinn Óskarsson snýr aftur til æfinga með aðalliði Real Sociedad á morgun eftir langan tíma frá.

109 dagar eru síðan Orri Steinn spilaði síðast fyrir lið Sociedad. Hann lék fyrstu þrjár umferðirnar í spænsku úrvalsdeildinni en hefur ekki leikið með liðinu síðan 30. ágúst.

Meiðsli í læri hafa haldið honum frá vellinum og reynst erfið viðureignar. Ekki var búist við svo langri fjarveru en hann missti af allri undankeppni HM í haust með íslenska landsliðinu vegna meiðslanna.

Spænskir fjölmiðlar greina frá því að hann snúi loks á morgun aftur til hefðbundinna æfinga með aðalliði Real Sociedad eftir rúma þrjá mánuði af endurhæfingu. Óljóst er þó hvenær Orri Steinn getur snúið aftur út á keppnisvöll með baskneska liðinu.

Orri skoraði eitt mark í fyrstu þremur leikjum ársins, en hann hefur ekki spilað nema 112 mínútur á leiktíðinni.

Real Sociedad hefur átt í miklum vandræðum í fjarveru Orra en þjálfara liðsins, Sergio Francisco, var sagt upp störfum á dögunum eftir 2-1 tap fyrir Girona um helgina. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×