Fótbolti

Í fyrsta sinn rukkað inn á Fan Zone á HM

Sindri Sverrisson skrifar
Stuðningsmenn hafa hingað til getað safnast saman í Fan Zone án þess að þurfa að greiða neinn aðgangseyri.
Stuðningsmenn hafa hingað til getað safnast saman í Fan Zone án þess að þurfa að greiða neinn aðgangseyri. Getty/Claudio Villa

Eins og jafnan á stórmótum í fótbolta verða sérstök stuðningsmannasvæði, oft nefnd Fan Zone, á HM næsta sumar. Ávallt hefur verið ókeypis inn á þessi svæði en það gildir ekki að þessu sinni.

Stuðningsmannasvæðin á HM karla í fótbolta nefnast FIFA Fan Festivals og verða þau víða í Bandaríkjunum, á þremur stöðum í Mexíkó og á tveimur stöðum í Kanada, í tengslum við leiki mótsins sem fara fram í þessum löndum.

Á miðlum sameinaðs stuðningsmannasvæðis New York og New Jersey var í gær tilkynnt að rukkað yrði inn á svæðið. Mun það kosta 12,5 dollara, eða um 1.600 krónur, á mann að fá aðgang og virðist svæðið allt hið glæsilegasta.

Á fyrri heimsmeistaramótum hefur einnig verið boðið upp á glæsileg stuðningsmannasvæði þar sem fólk hefur getað hist og horft á leikina á stórum skjám, keypt sér veitingar og fundið sér ýmsa afþreyingu sem oftast tengist fótbolta með einhverjum hætti. Þar hefur ekki verið neinn aðgangseyrir.

Ljóst er að tilkynningin um að rukkað verði inn á svæðið næsta sumar leggst illa í stuðningsmenn sem láta í sér heyra á samfélagsmiðlum og saka mótshaldara um græðgi. Ekki er ljóst hvort ákvörðunin um að rukka er komin frá FIFA eða viðkomandi borgaryfirvöldum.

Málið bætist við þá óánægju sem verið hefur vegna sögulega hás miðaverðs á leikina á HM. 

FIFA hefur þó brugðist við þeirri óánægju að dálitlu leyti með því að bjóða þátttökuþjóðum upp á miða á 60 dollara, eða um 7.600 krónur, en fjöldi slíkra miða verður þó afar takmarkaður og hefur The Athletic sagt að líklega verði aðeins um 1.000 slíkir miðar á hverjum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×