Skoðun

„Rúss­land hefur ráðist inn í 19 ríki“ - og samt engin ógn?

Daði Freyr Ólafsson skrifar

Einar Ólafsson, fyrrverandi bókavörður og sagnfræðingur að mennt, skrifaði nýlega skoðanagrein á Vísi þar sem hann gagnrýnir yfirlýsingar utanríkisráðherra Íslands varðandi ógn sem stafar af Rússlandi gagnvart NATO. Grein Einars er vel skrifuð, fróðleg og sagnfræðilega samkvæm sjálfri sér. Hún er líka hæfilega afvopnandi á þann hátt að hún afvopnar fyrst og fremst lesandann, ekki ógnina sem hún fjallar um.

Aðferðin er kunnugleg:

Draga fram langt sögusamhengi, útskýra innrásir með „aðstæðum“, „áhrifasvæðum“ og „ótta stórvelda“, og enda svo á þeirri fullyrðingu að þetta segi okkur ekkert um ógnina núna. Það hljómar yfirvegað. Það er líka röng niðurstaða byggð á röngum forsendum.

Stærsta vandamálið er það sem vantar í söguna

Einar nefnir ekki einu orði leynilega stríðið sem Rússland háir í Evrópu í dag:

netárásir á innviði, skemmdarverk á orku- og fjarskiptakerfum, áróðurshernaður, pólitískar íhlutanir, drónaflug yfir flugvöllum, skemmdarverk á neðansjávarinnviðum. Þetta er ekki sagnfræðilegt aukaatriði. Þetta er kjarninn í nútímaógninni.

Úkraína er svo sett á stall með Tsjetsjeníu, Georgíu og Afganistan sem enn eitt dæmið í langri sögu útþenslu Rússlands. Stríðið í Úkraínu er hins vegar ekki einungis innrás. Það er tilraun til að endurskilgreina landamæri Evrópu með valdi, brjóta alþjóðalög kerfisbundið og sýna að vestræn varnarkerfi standi höllum fæti. Það er ástæðan fyrir því að NATO talar um Rússland sem mestu ógnina, ekki vegna innrása fyrri alda, heldur vegna kerfisbundinnar valdbeitingar frá 2014 til dagsins í dag.

Fullyrðingin „það hefur ekkert ríki ráðist inn í Rússland“ er sett fram af utanríkisráðherra til að undirstrika sögulegt mynstur rússneskrar valdbeitingar. Í meðförum Einars verður hún hins vegar hálfsannleikur notaður sem skjöldur, ekki til að greina ógnina, heldur til að afvopna hana. Jú, innrás nasista í Sovétríkin 1941 gleymdist í Silfrinu, en að nota þá reynslu til að réttlæta innrásir, áhrifasvæði og stöðuga sókn er ekki hlutlaus sagnfræði heldur sama röksemd og Kreml beitir í dag, röksemdafærsla síðustu aldar, ekki þessarar.

Einar er sagnfræðingur. Það sést

Greinin er skrifuð eins og stríð sé eitthvað sem gerist í bókum, ekki á flugvöllum, spítölum, barnaskólum og höfnum okkar þar sem borgaralegt samfélag verður skotmark. Hún er örugg úr fjarlægð, eins konar svefnlestur fyrir þá sem vilja trúa því að ógn hverfi ef hún er sett í nógu langt samhengi.

Ógnarmat snýst ekki um fortíðina eina

Það snýst um ásetning, getu og mynstur í dag.

Sagan er - því miður - alls ekki búin.

Höfundur er varaformaður Varðmanna Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×