Fótbolti

Þjálfari Þóris sá rautt í tapi fyrir Fabregas

Valur Páll Eiríksson skrifar
Di Francesco fór upp í stúku þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður.
Di Francesco fór upp í stúku þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður. Maurizio Lagana/Getty Images

Þórir Jóhann Helgason spilaði rúmar tíu mínútur í 3-0 tapi Lecce fyrir Como í ítölsku A-deildinni.

Lecce hefur átt misjöfnu gengi að fagna í vetur og berst við fallsvæðið. Andstæðingurinn í Como hefur staðið sig vel og berst um Evrópusæti.

Argentínumaðurinn Nico Paz nýtur sín vel undir stjórn Cesc Fabregas og hefur farið hamförum í liði Como og verið einn allra besti leikmaður deildarinnar í vetur. Hann kom Como yfir á tuttugustu mínútu. Skömmu síðar fékk Eusebio Di Francesco, stjóri Lecce, reisupassann vegna almennra leiðinda.

Spánverjinn Jacobo Ramón tvöfaldaði forystu Como eftir hléið og gríski framherjinn Anastasios Douvikas innsiglaði 3-0 sigur liðsins þegar korter var eftir.

Þórir Jóhann kom inn sem varamaður á 79. mínútu en gat litlu breytt um niðurstöðuna.

Como er í sjötta sæti deildarinnar með 27 stig, þremur frá Meistaradeildarsæti, en Lecce með 16 stig í 16. sæti, fjórum fyrir ofan fallsvæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×