Skoðun

Full­kom­lega af­greitt þjóðar­at­kvæði

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Haustið 2012 var haldin ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla á Íslandi þar sem spurt var: „Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“ Tveir þriðju þeirra 48,4% kjósenda sem tóku þátt í þjóðaratkvæðinu svöruðu spurningunni játandi eða tæpur þriðjungur kosningabærra manna í landinu.

Frumvarp að nýrri stjórnarskrá í stað lýðveldisstjórnarskrárinnar var í framhaldinu lagt fram á Alþingi en náði hins vegar ekki fram að ganga. Með því var þjóðaratkvæðið uppfyllt samkvæmt orðanna hljóðan. Frumvarpið var samið á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs og það lagt fram. Þar með var það afgreitt. Alþingi átti síðan lokaorðið.

Harðir stuðningsmenn þess að skipt verði um stjórnarskrá hafa iðulega haldið því fram að spurt hafi verið í þjóðaratkvæðinu hvort leggja ætti tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Ekki frumvarpi að nýrri stjórnarskrá eins og spurt var í raun. Nú síðast Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélagsins, á Vísi í gær.

Vitanlega er þar grundvallarmunur á og fyrir vikið um ákveðna sögufölsun að ræða. Þess má geta að í kynningarbæklingi sem sendur var á hvert heimili í landinu fyrir þjóðaratkvæðið var útskýrt að samkvæmt stjórnskipun landsins ætti Alþingi síðasta orðið í þessum efnum og eins var það tekið fram með skýrum hætti á kjörseðlinum.

Feneyjanefnd Evrópuráðsins, sem veitir álit á stjórnskipulegum málefnum, áréttaði að sama skapi í umfjöllun sinni um tillögur stjórnlagaráðs að Alþingi ætti lokaorðið. Þá var ráðinu aldrei veitt umboð til þess að semja nýja stjórnarskrá í stað stjórnarskrár lýðveldisins heldur einungis leggja fram tillögur að breytingum á henni.

Frá þjóðaratkvæðinu hefur fimm sinnum verið kosið til Alþingis og hafa flokkar hlynntir því að skipta um stjórnarskrá hver á fætur öðrum dottið út af þingi. Eini flokkurinn sem lagt hefur áherzlu á málið sem er eftir er Samfylkingin en fyrir rúmum þremur árum lagði flokkurinn málið til hliðar og fór fylgi hans vaxandi í kjölfarið.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Sjá meira


×