Innlent

Söfnun fyrir Kjartan gengur vel

Lovísa Arnardóttir skrifar
Söfnun vina Kjartans gengur vel að sögn vinar hans, Agnars Jónssonar. 
Söfnun vina Kjartans gengur vel að sögn vinar hans, Agnars Jónssonar.  Aðsend

Búið er að safna um tíu milljónum króna fyrir Kjartan Guðmundsson sem enn er haldið sofandi í öndunarvél í Suður-Afríku þar sem hann lenti í bílslysi fyrr í mánuðinum. Dóttir hans og móðir létust í slysinu. Vinir Agnars hófu söfnun fyrir Kjartan en þá var þegar hafin söfnun fyrir móður stúlkunnar sem lést og fyrir meðferð bróður hennar sem er í meðferð í Suður-Afríku.

Agnar Jónsson, vinur Kjartans, segir að honum sé enn haldið sofandi í öndunarvél. Fram kom í viðtali við Agnar í sjónvarpsfréttum Sýnar í gær að Kjartan hefði verið vakinn nokkrum dögum eftir slysið en svo svæfður aftur. Þar kom einnig fram að Kjartan hefði ekki almennilega komist til meðvitundar og því vissi hann ekki hvað gerðist í slysinu.

Agnar segir stefnt að því að stofna félagasamtök um söfnunina og að það eigi að vera alveg gagnsætt í hvað peningarnir fara. Stjórnvöld hafi gefið út að þau greiði fyrir flutning stúlkunnar og ömmu hennar til Íslands en ekki annað. Til dæmis greiði þau ekki fyrir líkkistur eða annað sem þurfi fyrir slíkan flutning.

„Við erum að vinna að því að stofna félagasamtök til að halda utan um söfnunina en lykilmarkmið hjá okkur er gegnsæi,“ segir Agnar í samtali við Vísi. 

Hann segir markmið söfnunarinnar að gera þeim sem standa Kjartani næst kleift að vera til staðar þegar og ef hann vaknar.

„Hann er í öðru landi og hefur misst ótrúlega margt. Að færa „Ísland“ nær honum, þar sem ekki er mögulegt að flytja hann heim að svo stöddu, samkvæmt ráðleggingum lækna erlendis,“ segir Agnar.

Þá eigi söfnunin einnig að gera honum kleift að standa straum af útfararkostnaði vegna andláts móður sinnar, líkamlegrar og andlegrar endurhæfingar sinnar og ferðakostnaði vegna ferðalaga aðstandenda hans.

Þá segir Agnar að til standi að halda minningarathöfn í Suður-Afríku fyrir þau sem þar eru og fyrir aðstandendur á Íslandi.

„Það á örugglega eftir að bætast á þennan lista seinna meir,“ segir Agnar.

Hann segir aðstandendur Kjartans öllum ævinlega þakklát sem styrkt hafa söfnunina. 

Peningar sem safnast fyrir Kjartan á einnig að nýta í lögmannskostnað vegna rannsóknar á slysinu. Fram kom í viðtali við Agnar í gær að slysið hefði orðið á þekktu hættusvæði utan við borgina Mbombela. Enn eigi eftir að rannsaka það til hlítar. Þá eigi einnig að nýta peningana til að greiða fyrir það að sonur Kjartans, sem enn er í meðferð í Suður-Afríku, geti heimsótt föður sinn.

Söfnun fyrir móður

Aðstandendur móður stúlkunnar hófu einnig söfnun fyrir hana stuttu eftir slysið. Ekki hefur verið gefið út hversu mikið hefur safnast í þeirri söfnun en í frétt mbl.is í gær kom fram að samkvæmt óstaðfestum heimildum miðilsins hefðu safnast um 30 milljónir króna. Vísir hefur ekki fengið upphæðina staðfesta. 

Samkvæmt aðstandendum þeirrar söfnunar er búið að safna fyrir útför stúlkunnar, meðferð drengsins og öðrum kostnaði sem fylgir vegna meðferðarinnar, eins og heimsóknum móðurinnar til hans þar til meðferðinni lýkur á næsta ári.


Tengdar fréttir

„Ég hef aldrei upplifað annan eins harm“

Viðbrögð við söfnun fyrir fjölskyldu íslensku stúlkunnar, sem lést í bílslysi í Suður-Afríku á miðvikudag, hafa verið góð. Skipuleggjandi söfnunarinnar segir harminn ólýsanlegan og hvetur fólk til að leggja hönd á plóg til að létta undir með móðurinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×