Enski boltinn

Ungur varnar­maður sagður á leið til Liverpool

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ordonez í baráttunni við Gabriel Jesus í Meistaradeildinni í desember. Hann gæti barist við hann í ensku úrvalsdeildinni á nýju ári.
Ordonez í baráttunni við Gabriel Jesus í Meistaradeildinni í desember. Hann gæti barist við hann í ensku úrvalsdeildinni á nýju ári. Stuart MacFarlane/Arsenal FC via Getty Images

Hinn ekvadorski Joel Ordóñez er sagður á leið til Liverpool í ensku úrvalsdeildinni. Liverpool hyggist þannig fjölga í fámennri varnarsveit liðsins.

Ordóñez er 21 árs gamall miðvörður sem leikur með Club Brugge í Belgíu. Hann hefur leikið með liðinu frá árinu 2023 og varð með því belgískur meistari vorið 2024 og bikarmeistari síðasta vor.

Hann hefur verið lykilmaður hjá liðinu þrátt fyrir ungan aldur og samhliða því leikið 14 landsleiki fyrir ekvadorska landsliðið.

Liverpool hefur elst við Marc Guéhi, varnarmann Crystal Palace, síðan síðasta sumar en Lundúnaliðið kom í veg fyrir sölu hans til Bítlaborgarinnar á lokadegi félagsskiptagluggans í haust.

Guéhi klárar samning sinn hjá Palace í sumar en er sagður vilja klára tímabilið með liðinu og finna sér nýtt félag í júlí fremur en nú í janúar.

Chelsea, Bayern Munchen og Real Madrid hafa auga á Guéhi en stjórnarmenn Liverpool eru sagðir bjartsýnir að fá hann frítt næsta sumar þrátt fyrir áhuga annarsstaðar frá.

Varnarlína liðsins er þunnskipuð en þeir Virgil van Dijk og Ibrahima Konaté hafa spilað flestalla leiki í miðvarðarstöðunni. Að Joe Gomez undanskildum er fátt um varaskeifur. Ítalinn ungi Giovani Leoni kom til Liverpool frá Parma í sumar en hann sleit krossband í deildabikarleik í haust og spilar ekki meira á leiktíðinni.

Orðrómar um komu Ordóñez til að fjölga kostum Púllara í varnarlínunni hafa orðið sífellt háværari í breskum fjölmiðlum, til að mynda hjá Sky Sports. Mirror fullyrðir að gengið verði frá kaupunum á næstu dögum.

Fregnir af kaupverði eru breytilegar en sagt er að Liverpool muni greiða Club Brugge á bilinu 35 til 45 milljónir punda fyrir þjónustu Ekvadorans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×