Lífið

Móðguð fyrir hönd ferða­þjónustunnar

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Bjarnheiður Hallsdóttir, fyrrverandi formaður SAF, segir engan fulltrúa ferðaþjónustunnar hafa fengið boð í nýársboð Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, á þrettándanum.
Bjarnheiður Hallsdóttir, fyrrverandi formaður SAF, segir engan fulltrúa ferðaþjónustunnar hafa fengið boð í nýársboð Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, á þrettándanum.

Fyrrverandi formaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir engan fulltrúa ferðaþjónustunnar hafa fengið boð á Bessastaði og gerir alvarlega athugasemd við þá ákvörðun.

Vísir greindi frá því í morgun hverjum hefði verið boðið í nýársboð Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, á þrettándanum, 6. janúar síðastliðinn. Tæplega sex hundruð manns voru á gestalistanum, fjölbreyttur hópur embættismanna, fulltrúa menntastofnana, trúfélaga og ýmissa hagsmuna-, íþrótta- og frístundasamtaka auk ýmissa annarra.

Samkvæmt forsetaritara var um að ræða heildarlista yfir alla þá sem fengu boð en ekki þá sem samþykktu boðið. Því því ekki hægt að lesa úr honum hverjir mættu og hverjir voru heima. Athygli vakti þó að ýmis þekkt nöfn vantaði á listann, þar á meðal Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra; Ársæl Guðmundsson, skólameistara Borgarholtsskóla og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar.

Einn þeirra sem er óánægður með listann er Bjarnheiður Hallsdóttir, fyrrverandi formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, sem birti færslu um nýársboðið á Facebook-hópnum Bakland ferðaþjónustunnar upp úr hádeginu.

Segir engum fulltrúa ferðaþjónustunnar boðið

„Það má margt segja og skrifa um veisluhöld af hálfu hins opinbera fyrir útvalda, en það er efni í annan pistil. Hins vegar er alveg ljóst að ferðaþjónustunni, stærstu útflutningsgrein þjóðarinnar var ekki boðið á þessa silkihúfusamkomu. Engum. Hvorki fulltrúum Samtaka ferðaþjónustunnar, né stórra og mikilvægra fyrirtækja á borð við Icelandair,“ skrifar Bjarnheiður í færslunni.

Bjarnheiður er ekki sátt.Vísir

„Á gestalistanum mátti hins vegar finna formann og framkvæmdastjóra Samtaka Iðnaðarins, formann fyrirtækja í sjávarútvegi, formann Félags kvenna í atvinnulífinu og forstjóra Rio Tinto á Íslandi. Einnig voru þarna á boðslista formaður Klifursambands Íslands, formaður Júdósambands Íslands og Taekwondosambands Íslands. Allt þjóðþrifasambönd auðvitað,“ skrifar hún.

„Ekki það að ég gefi tíaur fyrir svona samkomur, veit það af reynslu að uppskrúfaðri og leiðinlegri partý eru vandfundin - en ég er móðguð fyrir hönd ferðaþjónustunnar og geri alvarlega athugasemd við þetta!“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.