Innlent

Hvatt til að hvíla einkabílinn vegna mengunar

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Hátt gildi svifryks mældist á Grensásvegi.
Hátt gildi svifryks mældist á Grensásvegi. Vísir/Vilhelm

Styrkur svifryks hefur mælst hár í höfuðborginni í dag. Reykjavíkurborg hvetur almenning til að hvíla einkabílinn og geyma ferðir sem eru ekki aðkallandi. 

Svifrykið kemur vegna umferðar í borginni en þar sem götur eru þurrar eru gildi einnig há á stöðvum fjær stórum umferðaræðum. Á hádegi mældist svifryk upp á 171,4 við Grensásveg en sólarhringsheilsuverndarmörkin eru fimmtíu míkrógrömm á rúmmetra.

Stefnt er á að rykbinda í nótt til að draga úr uppþyrlun ryks. Gert er ráð fyrir svipuðum veðuraðstæðum um helgina en vonir standa til að rykbinding muni draga úr svifryksmengun.

Loftgæði á höfuðborgarsvæðinu klukkan 13:20. Rauðu merkin standa fyrir óholl loftgæði.Skjáskot/Loftgæði.is

„Þau sem eru viðkvæm fyrir í öndunarfærum, aldraðir og börn ættu að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu,“ segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Íbúar eru hvattir til að draga úr notkun einkabílsins og geyma ferðir sem eru ekki aðkallandi. Þeir ættu frekar að nýta sér almenningssamgöngur, sameinast í bíla eða nota aðra vistvæna samgöngumáta. Einnig er skorað á fyrirtæki að hvetja starfsfólk til að vinna fjarvinnu á svifryksdögum sé þess kostur.

Hægt er að fylgjast með loftgæðum á öllu landinu á loftgæði.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×