Sport

Ömur­leg enda­lok fyrir Aaron Rodgers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aaron Rodgers gengur af velli eftir tap Pittsburgh Steelers í nótt í mögulega síðasta leik hans á ferlinum.
Aaron Rodgers gengur af velli eftir tap Pittsburgh Steelers í nótt í mögulega síðasta leik hans á ferlinum. Getty/ Joe Sargent

Houston Texans sýndu frábæran varnarleik þegar þeir unnu Pittsburgh Steelers 30-6 og tryggðu sér síðasta sætið í umspili deildanna í úrslitakeppni NFL.

Búist var við að síðasti leikur „Wildcard“-helgarinnar á mánudag yrði stigalítill og svo varð í þrjá leikhluta, en þá leiddi Houston 7-6.

Þá stungu Texans af með þremur snertimörkum í síðasta leikhlutanum en tvö þeirra voru skoruð af varnarmönnum þeirra eftir að hafa unnið boltann.

Þetta voru því ömurleg endalok fyrir leikstjórnanda Pittsburgh, Aaron Rodgers, í því sem gæti verið síðasti leikurinn á glæstum ferli hins 42 ára gamla leikmanns. 

Eftir að hafa gengið til liðs við Steelers á eins árs samningi hefur fjórfaldur verðmætasti leikmaður NFL-deildarinnar sagt að þetta gæti verið hans síðasta tímabil.

Og Pittsburgh er nú úr leik í úrslitakeppninni en Houston, fimmta liðið í AFC-deildinni, tryggði sér ferð til New England Patriots næsta sunnudag.

Talið er að Steelers séu opnir fyrir því að fá Rodgers aftur fyrir það sem yrði hans 22. tímabil í NFL, en í samtali eftir leikinn á mánudag sagði hann að hann myndi nú „fara í burtu og eiga réttu samtölin“.

„Ég ætla ekki að taka neinar tilfinningalegar ákvarðanir. Þetta hefur verið skemmtilegt ár svo það eru vonbrigði að sitja hér þegar tímabilið er búið,“ sagði Rodgers.

Á meðan Houston hefur aukið vonir sínar um að komast í sinn fyrsta Super Bowl-leik mun Rodgers íhuga að ljúka ferli sínum með aðeins einni þátttöku í þessum úrslitaleik NFL-deildarinnar.

Það var árið 2011, þegar Rodgers leiddi Green Bay Packers til sigurs á Pittsburgh, en hvorki hann né Steelers hafa ekki komist aftur í stóra leikinn síðan.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×