Handbolti

Danir völdu á milli Gumma Gumm og Dags Sig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson og Guðmundur Guðmundsson unnu báðir stórmótagull árið 2016, Guðmundur með Dönum á Ólympíuleikunum en Dagur á Evrópumótinu fyrr á sama ári.
Dagur Sigurðsson og Guðmundur Guðmundsson unnu báðir stórmótagull árið 2016, Guðmundur með Dönum á Ólympíuleikunum en Dagur á Evrópumótinu fyrr á sama ári. Getty/Luka Stanzl/Henk Seppen

Það kemur ýmislegt fram í heimildarmyndinni Founding Fathers þar sem farið er yfir uppgang og sigursæla tíma danska handboltalandsliðsins með goðsögnum landsliðsins, bæði í dag sem og á árum áður.

Meðal annars er sú staðreynd að Guðmundur Guðmundsson var ekki eini Íslendingurinn sem var á blaði þegar Danir leituðu sér að nýjum landsliðsþjálfara fyrir rúmum tólf árum síðan.

Ulrik Wilbek var íþróttastjóri danska handboltasambandsins þegar Guðmundur var ráðinn landsliðsþjálfari. Guðmundur var ráðinn í október 2013 en tók ekki við landsliðinu fyrr en um sumarið 2014.

Var bæði íþróttastjóri og þjálfari

Wilbek hafði tekið við starfi íþróttastjóra árið 2012 en fyrstu tvö árin var hann sjálfur enn þá þjálfari karlalandsliðsins. Hann stýrði danska liðinu í síðasta sinn á Evrópumótinu 2014 þar sem danska landsliðið endaði í öðru sæti.

Wilbek hafði þá unnið tvenn gullverðlaun og sjö verðlaun sem þjálfari karlalandsliðs Dana og fern gullverðlaun og alls sjö verðlaun sem þjálfari danska kvennalandsliðsins þar á undan.

Þar sem Wilbek var íþróttastjóri danska sambandsins var hann allt í öllu í leitinni að eftirmanni sínum sem þjálfari karlalandsliðsins.

„Ég byrjaði sem íþróttastjóri árið 2012,“ sagði Ulrik Wilbek en greip hann á orðinu.

„Það hlýtur að hafa þá verið í þínum verkahring að ráða landsliðsþjálfara. Hver var hugsun þín á þeim tímapunkti,“ spurði Joachim Boldsen sem lék í tíu ár með danska landsliðinu og var í Evrópumeistaraliðinu undir stjórn Wilbek árið 2008.

Eitt höfuðmarkið í þjálfaraleitinni

„Ég hugsaði fyrst og fremst um eitt því það var eitt höfuðmarkmið og það var að finna einhvern þjálfara sem hafði trú á því að hann gæti unnið Ólympíuleikana með danska landsliðinu,“ sagði Wilbek.

„Við náðum því markmiði,“ sagði Wilbek en Guðmundur Guðmundsson gerði danska landsliðið að Ólympíumeisturum í fyrsta sinn á leikunum í Ríó árið 2016. Wilbek viðurkenndi samt eitt.

Bara Íslendingar komu til greina

„Ég get einnig sagt að við vorum með annað nafn á borðinu á þessum tíma og hann var einnig Íslendingur. Ég get greint frá því að það var Dagur [Sigurðsson],“ sagði Wilbek. En af hverju var danskur þjálfari ekki á blaði og bara Íslendingar?

„Á þeim tíma mátum við það að það væri enginn danskur þjálfari tilbúinn að taka við. Í dag, ef Nikolaj Jacobsen myndi hætta, þá myndi ég segja að það væru tveir eða þrír danskir þjálfarar sem kæmu til greina,“ sagði Wilbek.

Dagur gerði Þjóðverja síðan að Evrópumeisturum

„Þannig var ekki staðan í þá daga,“ sagði Wilbek en benti á það að danska sambandið hafi verið fljótt að ræða við Jacobsen þegar Guðmundur hætti störfum sem landsliðsþjálfari.

Dagur tók í staðinn við þýska landsliðinu í ágúst 2014 og gerði liðið að Evrópumeisturum 2016. Dagur var þá búinn að vinna gullið á undan Guðmundi en það var fyrsta stórmótagull Þjóðverja í níu ár (HM 2007). Seinna sama ár náði þýska landsliðið bronsi á sömu Ólympíuleikum þar sem Guðmundur vann gullið með danska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×