Handbolti

Stjarnan sendi Sel­foss á botninn

Sindri Sverrisson skrifar
Eva Björk Davíðsdóttir lagði sín lóð á vogarskálarnar í dag.
Eva Björk Davíðsdóttir lagði sín lóð á vogarskálarnar í dag. vísir/Hulda Margrét

Stjörnukonur unnu afar dýrmætan sigur gegn Selfyssingum í dag, 34-28, þegar Olís-deild kvenna í handbolta hófst að nýju eftir jólafrí, eftir að hafa unnið Fram í síðasta leik fyrir fríið.

Þetta eru einu sigrar Stjörnunnar til þessa á tímabilinu en liðið er nú komið með fimm stig, öll eftir að hafa skipt um þjálfara í byrjun nóvember, og komst í dag upp fyrir Selfoss sem er enn með fjögur stig, eftir tólf leiki.

Leikurinn var jafn framan af fyrri hálfleik en eftir að staðan hafði verið 12-12 fengu Stjörnukonur bara eitt mark á sig á síðustu níu mínútum fyrri hálfleiks og var staðan 16-13 að honum loknum. 

Stjarnan hélt svo áfram af sama krafti í upphafi seinni hálfleiks, skoraði fyrstu fimm mörkin og komst í 21-13. Eftir það var aldrei spurning hvernig færi og sigur heimakvenna öruggur, 34-28.

Eva Björk Davíðsdóttir var markahæst Stjörnunnar í dag með 12 mörk úr 16 skotum en hún skoraði helming marka sinna af vítalínunni. Natasja Hammer kom svo næst með sex mörk og Sara Katrín Gunnarsdóttir skoraði fimm. Hjá Selfossi var Mia Kristin Syverud markahæst með átta mörk og Hulda Dís Þrastardóttir skoraði sex.

Liðin tvö eru enn nokkuð á eftir liðinu í 6. sæti, KA/Þór, sem er með níu stig og á leik sinn við ÍR til góða sem nú er í gangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×