Innlent

Styrkti karlasamtök þvert á ráð­leggingar mats­nefndar

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Inga Sæland, þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, með styrkþegum.
Inga Sæland, þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, með styrkþegum. Stjórnarráðið

Félags- og húsnæðismálaráðherra ákvað að veita Samtökum um karlaathvarf styrk upp á milljónir króna þrátt fyrir að matsaðilar teldu forsvarsmenn samtakanna ekki hæfa til að sinna verkefninu. Samtökin fengu styrk á kostnað verkefnis lögreglunnar á Suðurlandi.

Í október árið 2025 auglýsti félags- og húsnæðismálaráðuneytið á vef stjórnarráðsins eftir umsóknum um styrki „til verkefna sem miða að því að tryggja þolendum og gerendum ofbeldis um land allt aðgengi að stuðningi og ráðgjöf“. Styrkirnir voru sagðir liður í aðgerðum stjórnvalda árin 2024-2025 til þess að bregðast við afleiðingum Covid-19 faraldursins.

Sérstök matsnefnd var skipuð til að fara yfir umsóknirnar.

Fjögur samtök fengu úthlutað styrk; Samtök um kvennaathvarf, Bjarkarhlíð, Kvennaráðgjöfin og Samtök um karlaathvarf. Styrkveitingin til Samtaka um karlaathvarf var þvert á við ráðleggingar matsnefndar.

„Umsóknin er sú eina sem nær sérstaklega til karla sem verða fyrir ofbeldi í nánum samböndum, sem hefur hingað til ekki fengið mikla athygli þrátt fyrir að vitað sé að karlar jafnt sem konur geti búið við slíkt. Við teljum þessa aðila þó ekki vera þá réttu til þess að framkvæma verkefnið sem m.a. felst í að gerð verði rannsókn,“ segir í umsögn matsnefndarinnar um samtökin.

Umsögnina má finna í gögnum frá ráðuneytinu sem Vísir hefur undir höndum. Rúv greindi fyrst frá.

Vekja athygli á bágri stöðu karlmanna

Á vefsíðu Samtaka um karlaathvarf er tilgangur samtakanna sagður vera „að vekja athygli á því misrétti sem karlmenn búa við á Íslandi og fræða almenning um þá stöðu sem karlkyns þolendur eru í“.

Samkvæmt fréttatilkynningu voru samtökin stofnuð í maí árið 2018 og voru forsvarsmenn þeirra þeir Huginn Þór Grétarsson, Gunnar Kristinn Þórðarson, Friðgeir Örn Hugi Ingibjartsson og Kristinn Sæmundsson. Huginn Þór er skráður forsvarsaðili þeirra í umsókninni.

Huginn Þór er barnabókahöfundur og menntaður viðskiptafræðingur. Hann varð að umfjöllunarefni fjölmiðla vegna fjölda meiðyrðamála sem hann höfðaði auk þess sem hann var í formennsku fyrir hópnum DaddyToo, eins konar andsvari við MeToo-hreyfingunni. 

Kristinn Sigurjónsson tók við styrknum fyrir hönd samtakanna en fjallað var talsvert um ummæli sem hann lét falla í Facebook-hópnum Karlmennskuspjallið um konur og var hann vegna þess rekinn úr stöðu sinni sem lektor við Háskólann í Reykjavík. 

Samtökin um karlaathvarf óskuðu eftir styrk upp á 6,75 milljónir króna en samkvæmt fjárhagsáætlun sem fylgdi umsókninni telja samtökin að fjárþörf verkefna þeirra sé ellefu milljónir króna. Til stendur að framkvæma rannsókn um ofbeldi gegn karlmönnum, deila niðurstöðunum opinberlega og veita karlkyns þolendum stuðning.

„Verkefnið gengur út á að afla og miðla upplýsingum um ofbeldi sem karlmenn þola. Það er nauðsynlegt að almenningur og yfirvöld séu upplýst um að karlmenn eru stór hluti þolenda, ella getur slíkt haft neikvæð áhrif á störf viðkomandi aðila,“ segir í umsókninni.

Með umsókn þeirra fylgja stuðningsbréf frá samtökunum Foreldrajafnrétti og Kærleikssamtökunum. Einnig segjast bæði samtökin ætla að taka þátt í vinnu við rannsókn Samtaka um karlaathvarf.

Valdi karla í stað lögreglu

Félags- og húsnæðismálaráðuneytinu bárust alls umsóknir frá sjö aðilum, þar af frá fjórum áðurnefndum samtökum sem hlutu styrk. Þau sem hlutu ekki styrk voru Afstaða, félag fanga sem vildu efla jafningastuðning meðal fanga, Samtök um kvennaathvarf sem sóttu um fræðslustyrk og Lögreglan á Suðurlandi sem vildu halda áfram með verkefnið sitt „Öruggara Suðurland“.

Alls voru sextíu milljónir króna í pottinum. Matsnefndin lagði til að Samtökin um kvennaathvarf fengju 26 milljónir til að styðja við rekstur þeirra, Lögreglan á Suðurlandi fengi 7,5 milljónir króna, Kvennaráðgjöfin fengi 4, 5 milljónir króna, Bjarkarhlíð fengi sjö milljónir til að bæta starfsemi á Vesturlandi og Vestfjörðum og að auki fimmtán milljónir fyrir rekstur þeirra.

Í athugasemd matsnefndarinnar er lagt til að í stað þess að styrkja Samtökin um karlaathvarf myndi ráðuneytið láta fagaðila framkvæma rannsókn á umfangi og eðli ofbeldis sem karlar verða fyrir. Þar væri hægt að leita til hagsmunasamtaka í málaflokknum, þar á meðal Samtakanna.

Inga Sæland, þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, ákvað að Samtökin um kvennaathvarf þrjátíu milljónir og Samtökin um karlaathvarf 3,5 milljónir. Hún fór eftir ráðleggingum matsnefndarinnar hvað varðar styrki til Kvennaráðgjafar og Bjarkahlíðar en ekki varðandi Lögregluna á Suðurlandi sem sat eftir með sárt ennið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×