Körfubolti

Hefur aldrei hlegið jafn­mikið og að horfa á Nablann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andri Már Eggertsson, Nablinn og Tómas Steindórsson sýndu mikil tilþrif á fimleikagólfinu.
Andri Már Eggertsson, Nablinn og Tómas Steindórsson sýndu mikil tilþrif á fimleikagólfinu.

Fimleikarnir í Extraleikunum ætla að vekja mikla athygli og nú er komið að gólfæfingum. Stefán Árni Pálsson frumsýndi tilþrif Andra Más Eggertssonar, Nablans og Tómasar Steindórssonar á gólfinu í nýjasta þættinum af Körfuboltakvöldi Extra.

„Við höfum verið að sýsla svolítið með bolta á Extraleikunum en við erum ekki að því núna. Við höldum áfram að vera án bolta því þið náttúrulega slóguð í gegn báðir í fimleikagrein eitt,“ sagði Stefán Árni Pálsson.

„Ég er búinn að fá töluverð viðbrögð og rosalega margir voru sammála mér. Ég er búinn að fá baráttukveðjur,“ sagði Tómas enn ósáttur eftir tapið í fyrstu fimleikagreininni. Ein kveðjan kom frá fimleikadómara. Greinilega umdeildur sigur hjá Nablanum.

„Ég þarf að segja þér eina sögu, Andri,“ sagði Stefán og spurði Nablann hver væri mesta goðsögn í íslenskum körfubolta hér innanlands frá upphafi,“ spurði Stefán Árni

Það stóð ekki á svarinu. „Teitur Örlygs,“ sagði Andri Már.

Kallaði á alla fjölskulduna og öll grenjuðu úr hlátri

„Teitur Örlygsson sagði mér að hann hafi aldrei hlegið jafn mikið og þegar þú hoppaðir á jafnvægissláni. Hann horfði, spólaði til baka, kallaði í alla fjölskylduna. Þau settust öll niður í sófann og grenjuðu úr hlátri,“ sagði Stefán.

Það var hins vegar komið nóg af því að rifja upp fimleikaæfingu eitt því nú var komið að fimleikagrein númer tvö.

„Við erum að fara í gólfæfingar og þetta er kannski svona mín uppáhaldsgrein hérna í fimleikum,“ sagði Stefán.

Hef mikla trú á þér í þessari grein

Það kom í ljós að Andri Már var í raun á heimavelli því hann hafði stundað leikfimi í grunnskóla í Gerpluhúsinu.

„Tómas. Ég hef náttúrulega mikla trú á þér hér í þessari grein. Því að fínhreyfingarnar þínar eru að mínu viti betri,“ sagði Stefán.

„Gaman að heyra og takk fyrir að segja þetta. Ef það er eitthvað sem ég ætti að vinna þá eru það æfingar á gólfinu. Það hefur svona verið mín sérgrein þegar ég er að horfa á fimleika í sjónvarpinu. Ég er nokkuð bjartsýnn,“ sagði Tómas.

Ég er náttúrulega miklu léttari

Andri Már var líka bjartsýnn. „Það segir sig sjálft að ég sé að fara að taka æfingar á gólfi. Ég er náttúrulega miklu léttari og fimari og einhvern veginn eru hreyfingarnar mínar svona eðlilegri fimleikafyrirhreyfingar,“ sagði Andri.

En hvernig kom allt út? Það má komast að því með því að horfa á tilþrif kappanna í fjórtándu umferð Extraleikanna hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×