Innlent

Gjör­breytt Langa­hlíð fyrir milljarð

Árni Sæberg skrifar
Kaflinn sem um ræðir nær frá Miklubraut að hringtorginu við Hamrahlíð og Eskihlíð.
Kaflinn sem um ræðir nær frá Miklubraut að hringtorginu við Hamrahlíð og Eskihlíð. Vísir/Egill

Samhliða umfangsmiklum veituframkvæmdum í Lönguhlíð í Reykjavík fær gatan nýtt útlit. Miðeyjan hverfur og sérstakir hjólastígar verða beggja vegna götunnar. Gangstéttir verða næst lóðamörkum en hjólastígarnir verða einstefnustígar upp við gangstéttarnar. Heildarkostnaður framkvæmdanna nemur ríflega milljarði króna.

„Langahlíð fær nýtt útlit og verður falleg borgargata með fyrirhuguðum framkvæmdum sem hefjast í vor. Markmið breytinganna er að bæta aðstæður fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og gera umhverfið öruggara og vistlegra. Framkvæmdirnar verða á svæðinu frá Eskitorgi að Miklubraut,“ segir í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar.

Gróður beggja megin

Í hönnuninni verði hönnuninni innleiddar blágrænar ofanvatnslausnir sem draga úr álagi á fráveitukerfi og hreinsa ofanvatn en það þýði að gróður verður beggja vegna götunnar, á milli götu og stíga.

Svona er Langahlíð í dag.Reykjavíkurborg

Drápuhlíð vestan Lönguhlíðar verði einnig endurnýjuð, bæði veitukerfi og gata. Þar hafi endanleg útfærsla ekki enn verið ákveðin en framundan sé samstarf við slembivalinn hóp íbúa í formi vinnustofu. Hönnun gæti tekið breytingum frá því sem áður hefur verið kynnt eftir frekara samtal við íbúa.

1.170 milljónir króna

Farið verði í sameiginlegt framkvæmdaútboð með Veitum. Áætlaður kostnaður Reykjavíkurborgar sé 525 milljónir króna en heildarkostnaðaráætlun hljóði upp á 1.170 milljónir króna. Borgarráð hafi samþykkt á fundi sínum fimmtudaginn 22. janúar að heimila umhverfis- og skipulagssviði að hefja innkaupaferli vegna framkvæmdanna.

Svona verður Langahlíð að loknum framkvæmdum, fyrir utan það að hjólastígurinn verður ekki rauður.Reykjavíkurborg

Áætlað sé að framkvæmdir hefjist í apríl og þær standi út árið 2027. Þegar verktaki verður kominn til leiks verði framkvæmdirnar útfærðar nánar. Veitur og Reykjavíkurborg muni, þegar nær dregur, vinna að því saman að upplýsa nærumhverfið um hjáleiðir og aðrar raskanir sem óhjákvæmilega fylgi stórum framkvæmdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×