Handbolti

„Náðum ekki að hjálpa markvörðunum okkar nóg“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson gaf sjö stoðsendingar gegn Króatíu og fiskaði sex vítaköst.
Gísli Þorgeir Kristjánsson gaf sjö stoðsendingar gegn Króatíu og fiskaði sex vítaköst. vísir/vilhelm

Gísli Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmaður í handbolta, var svekktur eftir tapið fyrir Króatíu, 29-30, í milliriðli II á EM í dag.

„Þetta er mjög svekkjandi og ég veit ekki alveg hvað á að segja. Við vorum frekar linir framan af og leyfðum þeim að stjórna hörkunni. Það voru of mörg göt í vörninni í fyrri hálfleik og náðum aldrei almennilega að hjálpa Viktori [Gísla Hallgrímssyni] að ná sér á strik,“ sagði Gísli í samtali við Henry Birgi Gunnarsson eftir leikinn í Malmö. 

Klippa: Viðtal við Gísla Þorgeir

„Á hinn bóginn verja þeir fjögur vítaköst og eru með mörg mjög mikilvæg dauðafæri og við fengum aldrei augnablikið með okkur til að fá þessi einföldu mörk og snúa blaðinu við. Mér finnst við alltaf fá færi; það var ekki það. Þeir börðu á okkur en mér fannst við láta boltann ganga mjög vel.“

Gísli var spurður hvort Íslendingar hefðu verið sjálfum sér verstir í leiknum í dag, ef litið er til færa og sérstaklega vítanna sem fóru í súginn.

„Ég veit ekki hvort ég myndi nota það hugtak því það eru bara alltaf þessi litlu smáatriði sem skipta hvað mestu máli. Við náðum aldrei þessu augnabliki þar sem þeir klikka og við náum að jafna eða eitthvað þannig. Þeir skora og við skorum þá. Þetta er bara þessi gamli góði ping pong leikur og við náðum ekki að hjálpa markvörðunum okkar nóg,“ sagði Gísli.

Leikstjórnandinn ber sig vel þrátt fyrir að fá harða útreið frá varnarmönnum andstæðinganna, leik eftir leik.

„Maður vissi hvað maður var að fara út í en ég er bara mjög svekktur,“ sagði Gísli að lokum.

Viðtalið við Gísla má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

„Þeir spila hægan bolta og reyna að svæfa mann“

„Ég held að allir séu bara helvíti fúlir,“ sagði Einar Þorsteinn Ólafsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í handbolta, eftir súrt eins marks tap liðsins gegn Króötum á EM í dag.

„Þetta er klárlega högg“

Landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson var eðlilega súr og svekktur eftir eins marks tap íslenska karlalandsliðsins í handbolta gegn Króötum á EM í dag.

Ein­kunnir Strákanna okkar á móti Króatíu: Basl á Bóndadaginn

Íslenska karlalandsliðið í handbolta tapaði sínum fyrsta leik á Evrópumótinu þegar það laut í lægra haldi fyrir Króatíu, 29-30, í milliriðli II í Malmö. Slök vörn í fyrri hálfleik og slæm vítanýting varð Íslandi að falli í dag.

Botna ekkert í Snorra: „Við erum teknir í bólinu“

„Plaffaðir í kaf og lítil markvarsla. Menn eru allt of mikið að gleyma sér,“ sagði Ólafur Stefánsson í hálfleik leiks Íslands og Króatíu á EM í handbolta, ómyrkur í máli þegar talið barst að hriplekri vörn Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×