Erlent

Vestur­lönd þurfa að borga milljarðatjón af á­rás Rússa á Tsjern­obyl

Kjartan Kjartansson skrifar
Verkamenn skoða gatið sem íranskur dróni á vegum Rússa skildi eftir sig í steinhvelfingunni utan um Tsjernobyl-kjarnorkuverið.
Verkamenn skoða gatið sem íranskur dróni á vegum Rússa skildi eftir sig í steinhvelfingunni utan um Tsjernobyl-kjarnorkuverið. Vísir/EPA

Líklegast er talið að vestræn ríki þurfi að bera milljarða króna kostnaðinn vegna skemmda sem urðu á steinhvelfingu utan um Tsjernobyl-kjarnorkuverið í Úkraínu við drónaárás Rússa í vetur.

Íranskur Shahed-sprengjudróni flaug á steinhvelfingu sem reist var utan um rústir Tsjernobyl-kjarnorkuversins til þess að koma í veg fyrir frekari geislamengun í febrúar. Engin geislamengun varð í kjölfar árásarinnar en steinhvelfingin, sem kostaði þúsundir milljarða í smíðum, skemmdist verulega.

Breska blaðið The Guardian segir að tjónið hlaupi á tugum milljóna evra, fleiri milljarða íslenskra króna. Líklegt sé að vestræn ríki þurfi að taka á sig kostnaðinn þar sem viðgerðirnar verði dýrari en þær 25 milljónir evra sem til eru í sérstökum alþjóðlegum sjóði fyrir kjarnorkuverið.

Dróninn gerði um fimmtán fermetra gat í ytra byrði steinhvelfingarinnar en sprengingin kveikti einnig eld í innra byrði hennar sem tók tvær vikur að slökkva endanlega í. Hætta er nú talin á að steinhvelfingin veðrist hraðar vegna skemmdanna með tilheyrandi hættu á að geislavirk efni berist út í umhverfið.

Rússnesk stjórnvöld kenndu Úkraínumönnum upphaflega um skemmdirnar á kjarnorkuverinu í febrúar. Úkraínskir saksóknarar telja hins vegar mögulegt að Rússar hafi ráðist vísvitandi á kjarnorkuverið og að þeir hafi þannig hugsanlega framið stríðsglæp. Rússar nota íranska Shahed-dróna í innrásarstríði sínu í Úkraínu.

Steinhvelfingin var reist yfir aðra og verri sem Sovétmenn byggðu utan um kjarnaofn fjögur eftir versta kjarnorkuslys í sögu heimsins árið 1986.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×