Fótbolti

Bonmatí komin til móts við spænska lands­liðið

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Aitana Bonmatí, handhafi síðustu tveggja Gullbolta.
Aitana Bonmatí, handhafi síðustu tveggja Gullbolta. Dennis Agyeman/Europa Press via Getty Images

Besti leikmaður heims, miðjumaðurinn Aitana Bonmatí, er komin til móts við spænska landsliðið á æfingasvæðinu í Sviss eftir að hafa verið lögð inn á sjúkrahús á Spáni vegna heilahimnubólgu.

Bonmatí var útskrifuð af sjúkrahúsinu í Madríd á sunnudag eftir að hafa legið þar síðan á föstudag með heilahimnubólgu, sem er bráð bólga í himnum sem umlykja heila og mænu. Oftast er það bakteríu- eða veirusýking sem veldur þessari bólgu.

https://www.visir.is/g/20252744869d/ut-skrifud-af-sjukra-husinu-og-gaeti-verid-med-em

Bonmatí missti af síðasta æfingaleiknum fyrir mót gegn Japan en flaug svo til Sviss.

Evrópumótið byrjar á miðvikudaginn og Spánn spilar sinn fyrsta leik við Portúgal á fimmtudag, en ólíklegt þykir að Bonmatí taki þar þátt.

Bonmatí hefur verið valin besta knattspyrnukona heims undanfarin tvö ár og er lykilleikmaður í liði Spánar sem varð heimsmeistari 2023 og vann Þjóðadeildina 2024.

Spánn á harma að hefna á EM eftir tap í átta liða úrslitum gegn Evrópumeisturum Englands árið 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×